146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Gagnrýni á þetta mál snýst ekki um að einhverjir einstaklingar, hvort sem þeir vinna í almennum verslunum eða í verslun ÁTVR, geti afgreitt áfengi. Þetta snýst ekki um getu fólks til að afgreiða áfengi. Þetta snýst um lýðheilsumál, aukna neyslu í kjölfar þessa, minna úrval af þessari vöru í verslunum úti um land, hærra verð. Hv. þingmaður hefur ekki sýnt mér fram á að áfengi verði á sama verði um land allt eins og það er í dag. Hv. þingmaður hefur heldur ekki sýnt mér fram á að verslanir úti á landi hafi sama úrval og er í ÁTVR í dag. Fyrir utan það að standa með lýðheilsu í landinu stend ég með þjónustustigi á landsbyggðinni eins og hv. þingmenn ættu að gera líka.