146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:58]
Horfa

Flm. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður flutti ræðu þar sem honum tekst að hafa tvær ósamrýmanlegar skoðanir í málinu. Það er ekki algengt að maður heyri það. Maður heyrir það stundum í dómsal þegar menn setja fram aðalkröfu og svo varakröfu. Aðalkrafan er að maðurinn sé saklaus, en varakrafan er sú að ef hann er sekur þá gerði hann þetta óvart. Hinar tvær ósamrýmanlegu skoðanir hv. þingmanns eru annars vegar sú að hafa áhyggjur af því að neyslan muni aukast og þar með hafa áhrif á lýðheilsu landsmanna og hins vegar sú að hafa áhyggjur af því að úrval, aðgengi og þjónusta versni verði frumvarpið að lögum.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að aðgengi landsmanna að áfengi í dag sé gott. Er aðgengið nokkurn veginn jafnt? Sitja íbúar landsins allir við sama borð? Telur hv. þingmaður að aðgengi íbúa á Þingeyri sem þarf að keyra 100 kílómetra kjósi hann að drekka áfengi eða vín með matnum sé sambærilegt og aðgengi íbúa á Seltjarnarnesi, þar sem enn er áfengisbúð þrátt fyrir áskorun bæjarstjórnar Seltjarnarness, sem þarf að ganga 100 metra? Er það sambærilegt aðgengi? Telur hv. þingmaður jafnræði meðal landsmanna að þessu leytinu til?