146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem landsbyggðarþingmaður talandi við hv. landsbyggðarþingmenn vil ég segja að hv. landsbyggðarþingmenn ættu að hafa áhyggjur af öðru úti á landsbyggðinni en því hvort menn þurfi þegar þeir gera stórinnkaup sín á stærstu stöðum á viðkomandi svæði, eins og á Ísafirði, að kaupa áfengi í leiðinni ef þeir kjósa svo. Hv. þingmenn ættu að hafa meiri áhyggjur af atvinnumálum þessara byggða og því að búið sé að leggja niður opinbera þjónustu hvort sem það eru bankar, Íslandspóstur eða annað því um líkt. (Gripið fram í.)Já, hv. þingmaður ætti að hafa áhyggjur af því. Í dag er mjög gott aðgengi að áfengi, hvort sem er á Vestfjörðum eða annars staðar. Það er bara þannig. Þeir sem búa í dreifðari byggðum þurfa að sækja þjónustu á kjarnastaði og sækja þessa þjónustu í leiðinni. Þeir eru mjög sáttir við það. Það hefur ekki komið nein áskorun frá fólki á þessum stöðum um að áfengi komi í sjoppurnar á staðnum. Það hefur ekki komið nein áskorun um það. Ef hv. þingmaður les kjósendur sína þannig að ákall sé um það hef ég aftur á móti ekki hitt þá kjósendur í Norðvesturkjördæmi eða heyrt almennt að sú sé rökræðan.

Varðandi það að það séu tvær ósamrýmanlegar skoðanir að vera hlynnt því að framboð sé yfir höfuð gott þar sem áfengi er leyft í áfengisverslun ríkisins og á sanngjörnu verði, á sama verði um allt land og að við þurfum að gæta að lýðheilsusjónarmiðum og þeim vandamálum sem fylgja áfengisneyslu, þá eru þetta raunar mjög samrýmanleg sjónarmið. Erum við að tala um að við ætlum að bæta lýðheilsuna með því að draga úr áfengisneyslu á landsbyggðinni, með því að leggja þjónustuna niður með því sem fylgir í kjölfarið á því að þetta verði tekið úr höndunum á ÁTVR?