146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:10]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Ég hef dálitlar áhyggjur af Viggó og Pálínu. Ég ráðlegg þeim jafnvel að hittast og fara á stefnumót einhvers staðar fyrst þau vilja koma á svona góðu sambandi. Ég hef líka pínulitlar áhyggjur af því að ef Viggó langar rosalega mikið til að selja Pálínu áfengi í ísbíl þá vill hv. þm. Pawel Bartoszek banna honum það. Og ef Viggó vill selja Pálínu áfengi í pylsuvagni til að sporðrenna pylsunni sinni með, til að bæta þeirra nána samband, þá vill hv. þm. Pawel Bartoszek banna Viggó það. Með öllum hans háleitu rökum hér um frelsi til athafna, hræsnina í ríkinu, hræsnina í löggjöfinni, þá gilda nákvæmlega sömu rök um þetta frumvarp hv. þingmanns og meðflutningsmanna hans þar sem hann leggur til að ákveðnum aðilum verði sérstaklega bannað að selja áfengi.

Ég hef haldið því fram í mínum ræðum um þetta frumvarp að við höfum öll þá skoðun að um áfengi eigi að gilda reglur, einhver mörk. Við viljum ekki selja það nema þeim sem er búinn að ná ákveðnum aldri. Við viljum ekki selja það á öllum tímum sólarhringsins. Hv. þm. Pawel Bartoszek vill ekki að Viggó fái að selja Pálínu áfengi ef Pálína vill kaupa áfengi af Viggó klukkan þrjú um nótt, það vill hv. þm. Pawel Bartoszek ekki. Þetta snýst um hvar mörkin liggja.

Því minna af loftkenndum hástemmdum ræðum, þó að þær séu sniðugar, sem við setjum fram í þessum ræðustól, því meira sem við förum að ræða um konkret atriði málsins sem snýst um það að öll viljum við einhver mörk, því meiri árangri og dýpri samræðum náum við. Af hverju vill hv. þm. Pawel Bartoszek ganga svona á réttindi vinar síns Viggós?