146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:19]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það þannig að ekki er hægt að fullyrða hvað mun gerast í framtíðinni, hvorki varðandi dreifingu né hvaða áhrif eitthvað hefur á verslun. Þó má vissulega geta sér þess til í ljósi reynslu annarra þjóða. Það er þannig að áfengi er vara sem er þess eðlis að hún á það til að styðja við minni verslun. Ég skal útskýra af hverju.

Áfengi er gjarnan vara sem fólk kaupir án gríðarlega mikils undirbúnings, ef við getum orðað það svo. Fólk langar að drekka áfengi og það fer í einhverja verslun sem er nálægt og kaupir það þar án þess að kannski hugsa mjög mikið um verðlagið á þeim tíma. Þetta er auðvelt að sjá ef borin er saman verslun annars vegar í Kaupmannahöfn og síðan hinum megin við sundið í Malmö. Litlar verslanir eru meira áberandi í götumynd Kaupmannahafnar en í Malmö af þeim ástæðum að fólk fer garnan í litlar verslanir til að kaupa áfengi. Þannig tryggir þetta rekstrargrundvöll verslana með aðra vöru. Þetta er þekkt.

Varðandi almennar áhyggjur þingmannsins um hvaða áhrif þetta mun hafa á úrvalið og aðgengi annars staðar þá get ég einungis getið mér þess til með hliðsjón af þeim ríkjum sem hafa gert þetta. Nýjasta dæmið er líklegast Washington-ríki í Bandaríkjunum, sem lögleiddi reyndar önnur efni á svipuðum tíma þannig að það eru kannski einhver önnur áhrif þar. Þar jókst fjöldi verslana þannig að aðgengi batnaði og það urðu ekki teljandi breytingar á aðgengi á hinum dreifðari sviðum. Ég hef borið þetta saman við Danmörku og aðra sambærilega staði. En nú er tíminn á þrotum í bili þannig að ég get ekki farið í það nema ég fái meiri tíma í seinna andsvari.