146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:29]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leitt ef hv. þm. Pawel Bartoszek getur ekki svarað því hvað honum finnst um aukið álag á heilbrigðiskerfi og löggæslu með auknu aðgengi að áfengi, vegna þess að það er hluti af kjarna þessa máls, þ.e. verið er að auka aðgengi að áfengi með tilheyrandi kostnaði á heilbrigðismál þjóðarinnar sem og aukið álag á þessar starfsstéttir.

Af því að hv. þingmanni verður tíðrætt um frjálsa samkeppni og frelsi og finnst eiginlega eins og við hin sem ekki erum á sömu blaðsíðu og hann séum uppfull af hræsni langar mig að spyrja: Er hann þá ekki frekar á því að brjóta niður núverandi fákeppni á smásölumarkaði en að gefa verslun með áfengi frjálsa inn á þann markað matvöruverslana sem er svo sannarlega markaður fákeppni og hefur ekkert eða lítið með (Forseti hringir.) hugmyndir um frjálsa samkeppni hv. þingmanns (Forseti hringir.) að gera?