146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Sú spá sem ég vitnaði til hvað varðar Washington-ríki er tekin úr National Public Health Task Force-skýrslu þar sem þessu er spáð. Eins og fram kom í ræðu minni er þetta ekki raunaukning og eins og hv. þingmaður nefnir er hún minni, a.m.k. enn sem komið er. Það sem athyglisvert er þó í því sem ég hef lesið um Washington-ríki, samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu á heimasíðu landlæknis frá árinu 2014, sem er vitnað til, því að hv. þingmaður gerði það að umtalsefni áðan í ræðu sinni en ég náði ekki að fara í andsvar við hann, er að stóru verslunarkeðjurnar hafi grætt mjög á þeim breytingum sem þar voru gerðar en ekki minni verslanir. Það er umhugsunarefni., þ.e. að stórar verslunarkeðjur á borð við Costco högnuðust en minni búðir gátu ekki keppt við þær þegar kom að áfengisframboði. Það er því spurning hver fjölbreytnin verður ef við tökum þau rök, sem ég gerði reyndar ekki að umtalsefni hér.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin: Ég ætla ekki að segja að hún hafi alltaf rétt fyrir sér, en ég held að þar höfum við ansi gott samsafn af sérfræðingum. Og ástæða þess að ég nefndi David Nutt er að í þessu máli eru svo ólíkir aðilar, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og David Nutt, sem hefur nú verið á öndverðum meiði við stofnunina í ýmsum málum. En það er svo merkilegt að báðir þessir aðilar eru þó sammála um eitt, það er að við eigum ekki að afnema einkasölu ríkisins á áfengi. Þessir aðilar eru sammála um að það fyrirkomulag sem við höfum hér virki til þess að takmarka aðgengi að áfengi og geti þannig verið alveg gríðarlega mikilvægt stýritæki til þess að draga úr áfengisneyslu. Þess vegna nefndi ég hann, fyrst hv. þingmaður furðaði sig á að ég hefði vitnað til hans. Það er einmitt vegna þess að ég tel að það skipti máli að við skoðum fjölbreytta aðila, (Forseti hringir.) að við nefnum ekki bara einhvern einn stóran sannleika í málinu heldur horfum einmitt til þeirra sem verið hafa gagnrýnir á þann stóra sannleika og hvað þeir segja. Ég kem að öðru í seinna andsvari.