146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:24]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga og mætum manni fyrir ágæta og yfirvegaða ræðu hér. Mig langar samt til að frábiðja mér þessa „strámenn“ um Trump sem komu fram hérna í annað sinn í þessari umræðu, að við værum að hafna vísindum með því að vera fylgjandi þessu frumvarpi. Það er bara ekki rétt. Við erum ekki að hafna empírískum niðurstöðum heilbrigðisstétta eða Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að líklegast muni áfengisneysla aukast við þetta. Við erum bara að segja að þau hafa ekki pólitískt kennivald yfir okkur. Okkar pólitíska hugmyndafræði ræðst ekki af því hvað stofnanir á borð við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina segja. Við getum jú sagt: Það væri kannski neikvætt. En er það hlutverk ríkisins að beita valdi sínu til að stýra neyslu fólks að því gefnu? Það er spurningin. Þarna er mikill munur á. Hv. þingmaður sagði að við værum að hafna empírískum vísindum. Við erum að taka ákvörðun út frá okkar gildum byggðum á þessum empírísku gögnum. Það er ekki ágreiningur um — jú, jú, það er einhver ágreiningur um einhverja núansa, en það er mikill munur á þessu.

Varðandi hitt, að stýra neyslu fólks, erum við ósammála. Það er spurning um hugmyndafræði. Ég frábið mér að menn láti eins og hugmyndafræði þeirra byggi eitthvað meira á upplýsingunum en okkar vegna þess að upplýsingar segja okkur í sjálfu sér ekki neitt um það hvað við eigum að gera. Þær segja okkur bara einhverja hluti um tölurnar þar sem við verðum að taka afstöðu. Ég er ekki á því að við eigum að beita valdi okkar hér sem þingmenn til þess að stýra neyslu fólks með valdboði. Við eigum að aðstoða fólk vegna vansældar með meðferðarúrræðum og forvörnum og þess háttar, eins og hv. þingmaður kom inn á. En það er bara siðferðislega reginmunur á því að segja: „Ef þú ert í vandræðum með áfengisdrykkjuna, kæri vinur, þá skal ég hjálpa þér“ og að segja: „Þú mátt ekki drekka áfengi, þú mátt ekki kaupa það hér, kæri vinur.“ Ég er ekki að ávarpa hv. Pawel, (Forseti hringir.) nei, Andrés. Fyrirgefðu, það (Forseti hringir.) er rétt, þið eruð svo líkir.