146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:29]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var rétt hjá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni að hann minntist ekki á Trump og ég bið hann velvirðingar á því að hafa notað það. Þetta var meira svona mín tilfinning að verið væri að gefa í skyn þessa hreyfingu sem afneitar loftslagsvísindum, sem ég tel alls ekki vera sambærilega við það sem við erum að segja. Ég vildi líka nota tækifærið til að koma til skila þeim greinarmun sem ég geri einmitt á því að samþykkja empírísk gögn en komast að ólíkum niðurstöðum út frá þeim.

Varðandi það sem hv. þm. Teitur Björn Einarsson sagði þá hefði ég eflaust sett margt af því fram með öðrum hætti, skulum við segja. Fólk hefur ólíkar ástæður til að vera fylgjendur þessa máls eins og það hefur ólíkar ástæður til að vera á móti því. Ég tel ekkert óeðlilegt við það. Hins vegar er eitthvað til í því að rannsóknir í félagsvísindum eru ekki einfalt viðfangsefni. Það er mjög erfitt að greina orsakasamhengi á milli ákveðinnar frumbreytu og fylgibreytu af því að áhrifin eru mjög ólík eftir félagslegu samhengi og eftir útfærslu og breytingum. Í því samhengi hefur t.d. verið bent á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, í sömu skýrslu og stöðugt er vitnað til, birtir gögn um að áfengisneysla er talsvert meiri í Mið- og Suður-Evrópu en í Norður-Evrópu og aðgengi þar mun frjálsara, á sama tíma og drykkjumenning þar er mun heilbrigðari og skaðsemi vegna drykkju mun minni. Menn hafa í rannsóknum komist að mjög mismunandi niðurstöðum eins og þessi 44% tala sem mikið er vitnað í er dæmi um. Hún byggir á samantektarrannsókn og 17 rannsóknum sem ekki virðist vera gefið aðgengi að þar sem munurinn er mikill, bara fjórðungamörkin eru frá 4% upp í 122%. Það bendir til að niðurstöðurnar séu mjög mismunandi eftir því hvaða rannsókn maður horfir á og í hvaða samhengi það er. Þetta er því ekki einhlítt, undir það tek ég hjá hv. þm. Teiti Birni Einarssyni, en að sama skapi þá hef ég áður sagt og segi enn að ég tel að rannsóknir bendi til að neyslan muni aukast a.m.k. tímabundið.