146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:38]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir fyrir svarið, hv. þm. Andrés Ingi Jónsson. Ég vil byrja á að taka undir mikilvægi þess að samvinna verði á milli hv. velferðarnefndar Alþingis og hv. allsherjar- og menntamálanefndar við vinnslu þessara mála, því að þessi mál koma svo sannarlega inn á borð beggja nefnda.

Í ræðu sinni ræddi hv. þingmaður um mikilvægi þess að gert yrði kostnaðarmat á áhrifum þessa frumvarps. Hann vitnar þá líklega í orð fagaðila, landlæknis og annarra aðila, sem talað hafa um að samþykkt þessa frumvarps gæti haft aukinn samfélagslegan kostnað í för með sér.

Þetta mál á jafnframt heima í hv. velferðarnefnd, eins og við ræddum áðan. Þar erum við með heilbrigðisáætlun til umræðu. Er ekki mjög mikilvægt að ræða þetta mál samhliða þingsályktunartillögu um heilbrigðisáætlun ef mál sem þetta verður samþykkt og vegna varnaðarorða landlæknis? Þarf ekki að skoða það samhliða þessari þingsályktunartillögu um aukið fjármagn til að bregðast við hinum aukna samfélagslega kostnaði inn í kerfið?

Síðan vitnaði hv. þingmaður í orð hv. flutningsmanns tillögunnar sem ræddi m.a. um að eftirlit með sölu í matvöruverslunum yrði jafnvel á herðum lögreglunnar. Ef það er ætlunin — það hlýtur nú að hafa verið einhver fljótfærni að segja það — þarf þá ekki að taka þennan þátt og aðra inn í löggæsluáætlun? Þetta væru þá aukin og ný verkefni á vegum lögreglunnar ef hún á að fara að standa vörð um sölu varnings í matvöruverslunum landsins, starfsstétt sem þegar er undir mjög miklu álagi alla daga.