146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:43]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég var ekki í þingsal þegar þetta frumvarp var lagt fram, var í þingerindum erlendis og hef velt fyrir mér síðan ég komst til að lesa það af hverju frumvarpið var lagt fram nú í upphafi þings og vegferðar nýrrar ríkisstjórnar. Það er nægur tími til að gera það seinna á kjörtímabilinu. Þetta er hreint ekki lítið mál en það er ótímabært nú þegar annað liggur á dagskrá miklu frekar en þetta mál. Það er annað að fást við og í miklu meira samræmi við ástandið í helstu málum sem varða almenning og almenningur kallar á. Mér finnst allt að því sorglegt að þurfa að eyða hér tíma í að ræða þetta hvað sem öðrum finnst um það.

Maður spyr sjálfan sig hvers vegna frumvarpið er yfir höfuð lagt fram, ég veit ekki í hvaða skipti. Það er rætt um frelsi, en mjög sjaldan af stuðningsmönnum frumvarpsins um viðskiptahagsmuni. Það er líka talað um úrbætur, en mjög sjaldan um hagnað af sömu aðilum. Þegar menn svo blanda þessu saman í einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi og viðskiptafrelsi lítur þetta út eins og þetta sé mál málanna en það er það ekki.

Farið er líka út í samanburð við önnur lönd, huglægan samanburð. Miðjarðarhafslönd eru nefnd með aldagamla hefð, bjór og borðvín. Ísland á sér allt aðra sögu, ólíka. Hún er miklu líkari sögu þjóða þar sem almenn áfengisneysla var býsna takmörkuð fram á síðustu öld eða svo. Maður hugsar oft út í það: Skyldi nú ekki vera ofneysla í þessum paradísarlöndum áfengisneyslunnar sem manni finnst oft látið liggja að? Vex þessi neysla eða minnkar hún? Eru þar umræður um aðgerðir til að minnka neysluna? Hafa menn áhyggjur af lýðheilsu í þeim löndum? Ég er viss um það. Ég þekki til bæði í Þýskalandi og Frakklandi þar sem þessi umræða bergmálar í fjölmiðlum og sennilega líka á þingi.

Hér er u.þ.b. tíundi hver landsmaður með einhvers konar áfengisvanda, er mér sagt. Hvernig skyldi það vera þar? Er það stærra hlutfall eða minna hlutfall? Finnst einhverjum það yfrið nóg? Ég held að miðað við þann árangur sem við höfum náð í baráttunni við þennan vágest, þá er ég að tala um áfengissýki, ættum við að hlusta á SÁÁ þegar kemur að þessu frumvarpi og fara eftir því sem það fagfólk segir en gera minna úr eigin pólitísku sannfæringu.

Menn ræða líka um bjórinn, láta eins og hér sé um að ræða einhvers konar svipuð rök eða svipaðan málflutning, en þá skulum við líta til þess hvað gerðist eftir að bjórinn var leyfður. Þá fór áfengisneysla manna á ári í hreinum vínanda úr fjórum lítrum upp í sjö á allmörgum árum. Hann hefur reyndar stöðvast þar, en sú aukning hefur áreiðanlega ekki minnkað þann vanda sem við höfum verið að glíma við í tengslum við áfengi á Íslandi. Ef nú kemur ný bylgja þá má spyrja flutningsmenn eða stuðningsmenn frumvarpsins: Eigum við að fagna átta lítrum eða eigum við að fagna níu lítrum eða tíu lítrum? Mun sú nýja bylgja, sem eflaust verður, ekki hafa einhver neikvæð áhrif?

Almannahagsmunir eru greinilega ofarlega í huga almennings, því að þær skoðanakannanir sem við höfum heyrt um sýna að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill annað hér á þingi en þetta málavafstur. Mér finnst að vaxandi meirihlutaafstaða almennings sé einhvers konar viðvörun til okkar um að endurskoða afstöðu a.m.k. þeirra sem styðja þetta mál.

Að vísindum. Lýðheilsa er hugtak sem oft heyrist í þessum umræðum og enginn þorir að gera lítið úr, en menn reyna gjarnan að þvæla afstöðu þeirra sem halda fast í mikilvægi lýðheilsunnar, ef ég heyrði rétt áðan í máli hv. þm. Viktors Orra Valgarðssonar, að skilja að einstaklingsfrelsi og lýðheilsu. Ég heyrði ekki betur. Hvað með aukin lyfjakaup í almennum verslunum? Er það eitthvað sem við viljum? Væri það að skerða einstaklingsfrelsi ef við bönnuðum það? Heyrði ég hann líka tala um að lýðheilsa varðaði sameiginleg kerfi okkar? Er það ekki heilbrigðiskerfið þá? Ég held það.

Lýðheilsuvísindi eru líka til. Þau eru alvörumál. Það þýðir lítið að flytja tölfræðiskemmtimál um eitt meðaltalseista mannkyns af því að það eru bæði karlar og konur, eins og kom fram í gagnrýni hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar á hv. flutningsmann, Teit Björn Einarsson, þegar hann lagði frumvarpið fram. Mergurinn málsins varðandi lýðheilsuvísindi er auðvitað sá að rannsóknir, gögn, tölfræði, kenningar og niðurstöður, varða vellíðan og heilbrigði heils samfélags. Það eru lýðheilsuvísindi. Þau ber að taka eins og fólk en ekki af léttúð, eða með því að ræða eitthvað annað í staðinn.

Frú forseti. Lýðheilsuhugtök og rök snúast ekki um mig einan eða hvern og einn hv. flutningsmann áfengisfrumvarpsins. Það snýst ekki um það hvort ég drekk eða ekki, drekk hóflega eða er ofneytandi, jafnvel áfengissjúklingur. Þetta snýst um hvernig neyslu og afleiðingum hennar er háttað með á að giska 240.000 mannverum hér á landi og fleirum ef fullorðnir innflytjendur eru taldir með. Með vísindalegum rannsóknum og þankagangi er unnt að taka upplýsta ákvörðun um aðgengi að áfengi í samfélaginu. Það er ekki flóknara en það.

Þá að ábyrgð. Ábyrgð samfélagsins snýr að öllu þessu fólki, þessari kvartmilljón sem ég ræddi um. Það snýst um ábyrgð okkar og það snýst um ábyrgð hvers einstaklings. Ótakmarkað frelsi þegar kemur að efni sem veldur ekki aðeins víðtækum vandræðum í félagslegum skilningi heldur líka alvarlegum sjúkdómum er ekki sjálfgefið. Það á að vera skilyrt frelsi. Hluti þess er takmarkað aðgengi með hinu skelfilega orði, skerðing.

Ég er hér með merka vísindagrein úr Frontiers in Public Health, eins og tímaritið heitir. Þetta er yfirlitsrannsókn á niðurstöðum annarra rannsókna og tengslum áfengisaðgengis og ofbeldisverka. Þrír vísindamenn skoða 87 vísindaritgerðir um slíkar rannsóknir þessara tengsla í 12 löndum. Nú eru löndin ekki bara Bandaríkin eða Miðjarðarhafslönd. Þetta eru 12 lönd. Ég hef því miður ekki upplýsingar um hver þau eru. Þeir komast að því að mikil tengsl séu þarna á milli, eða greinileg tengsl séu þarna á milli. Og þá er það aðgengið sjálft, það er í 93% tilvika, opnunartími 63% tilvika og verð 58% tilvika. Þetta eru óyggjandi tengsl þessara tveggja þátta.

Það kemur líka fram að t.d. eins klukkutíma skerðing á opnunartíma, 1% lækkun á áfengisverði og ef fjöldi áfengisverslana per póstnúmer, eins og þeir orða það, er minni en 25 hafi allt greinileg áhrif á þessi tengsl, þ.e. lækkar fjölda ofbeldisverka miðað við aðgengið. Þannig að þetta er óyggjandi sem svo.

Það er því hægt að fullyrða um áhrif aðgengis að áfengi á lýðheilsu. Þessi rannsókn sýnir það. Þetta er vísindarannsókn sem ekki er hægt að ýta út af borðinu. Þetta er það einhlítt og ber að taka það alvarlega, þetta dugar mér til að snúast gegn þessu frumvarpi.

Frú forseti. Vísindin tala hér nægilega skýrt. Aðrar rannsóknir á öðrum þáttum í tengslum aðgengis og áfengis við líf fólks benda líka til neikvæðra áhrifa. Hægt er að finna þær rannsóknir ef þingmenn hafa áhuga á.

Jafn undarlegt og það kann að vera sé ég fyrir mér og heyri svipuð rök fylgismanna þessa frumvarps og þegar reynt er að horfa fram hjá vísindum í málefnum alvarlegra loftslagsbreytinga. Þetta nefndi hv. þm. Andrés Ingi Jónsson líka áðan. Það eru ræður með huglægum rökum. Það eru orð um kosti boðaðra breytinga. Það eru orð um meint neikvæð áhrif, þ.e. viðræður andstæðinga um ákvæðin, þá eru það meint neikvæð áhrif. Þannig að tilraunir eru gerðar til að sneiða fram hjá vísindalegum staðreyndum, t.d. ef einhver reyndi nú að sneiða fram hjá þessum staðreyndum sem ég var hér með, líka í þeim umræðum um loftslagsvísindi, er hægt að halda innblásnar ræður um skerðingar og telja þær hrífa. Þær gera það raunverulega ekki þegar til lengdar lætur því að það er jafn auðvelt að játa að skerðingar eru eðlilega nauðsynlegar ef andóf gegn loftslagsbreytingum á að hrífa. Stýrt aðgengi að áfengi er sem sagt í góðu lagi líkt og stýrð losun gróðurhúsalofttegunda til dæmis. Þetta er allt saman skerðing á einstaklingsfrelsi.

Að lokum aðeins um ábyrgðina, hv. þingmenn. Hún felst í raun og veru í tveimur orðum; hún er bara já eða nei. Annaðhvort taka menn afstöðu með ábyrgð og segja nei, eða þeir taka afstöðu með ábyrgðarleysi og segja já. Ég tel að þetta frumvarp sé vondur málstaður að verja. Ef finna má eina rannsókn sem sýnir að aukið aðgengi að áfengi hafi áhrif til bóta á sannarlega vonda fylgifiska áfengisneyslu eða það bæti svokallaða áfengismenningu þætti mér gaman að sjá hana.

Frú forseti. Við skulum hlusta á meiri hluta landsmanna, á fagstofnanir og á félög sem segja: Nei, takk, ekki meir, ekki aftur. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna í tölvupóst Hallgríms Magnússonar geðlæknis sem útvegaði mér þessa grein. Hann segir í lok síns tölvupósts, tiltölulega hóflega:

„Frumvarpið gæti valdið verulegri aukningu á ofbeldisverkum miðað við núverandi ástand.“

Ég tel að þetta orð „gæti“ sé alveg nægjanlega skýrt til að menn eigi að endurhugsa sinn gang.