146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:58]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þetta andsvar. Það er svolítið sérstakt að vitna í hræðsluáróður, en það voru nú ein helstu rök manna í loftslagsbreytingaumræðunni. Það er leitt að heyra það aftur frá þeim sem mæla þessu frumvarpi bót að við hin séum með hræðsluáróður.

Varðandi þessa spurningu þá þarf að leggja miklu meira fé í forvarnir en við gerum. Ég sé það ekki endilega felast í því að gefa smásölu áfengis frjálsa, að þannig getum við náð í það fé. Nei, nei, við getum hækkað verð áfengis eða klipið af því verði sem nú er á áfengi og hækkað hlutfallið upp í 5% án þess að það hafi nokkuð með þetta frumvarp að gera. Tíminn sem við þurfum er áreiðanlega meiri en sjö ár. Hann er hins vegar, ef maður hugsar út í það, of langur, hvort hann er fimm, tíu eða fimmtán ár, en málið er að það tók langan tíma að koma okkur upp á áfengi. Það er svo sem ekkert rangt við að neyta áfengis í sjálfu sér, það geri ég t.d., svo ég komi nú minni persónulegu reynslu hér að einu sinni. En hitt er svo annað mál að vegna þess hversu langan tíma það tók mun það líka taka langan tíma fyrir þessar nauðsynlegu forvarnir að virka.