146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:02]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að biðjast velvirðingar á því hvað ég er ólmur að koma upp í pontuna þótt mér sé ekki boðið, þetta er bara svo áhugaverð umræða. Ég þakka þm. hv. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir ræðuna. Hann kom inn á það að ég hefði talað um að það væri mikilvægt að skilja að einstaklingsfrelsi og lýðheilsu. Ég kannast ekki við að hafa sagt það. Það er frekar mín sýn að lýðheilsa sé einungis samanlögð heilsa einstaklinga og sú heilsa eigi að vera á forræði þessara einstaklinga sjálfra, ekki meiri hluta heildarinnar. Ég held að hér kristallist svolítið viðhorfsmunur, hér er bara horft á heildina sem það eina sem skipti máli, en við eigum líka að virða rétt einstaklinga yfir sínu eigin lífi að mínu mati.

Hv. þingmaður talar um að lýðheilsa varði sameiginlegt kerfi sem er heilbrigðiskerfið. Það er rétt, en ég tel samt sem áður mikilvægt að gera greinarmun á þessu. Við höldum úti opinberu heilbrigðiskerfi vegna þess að við viljum hjálpa þeim sem lenda í vanda, en ég tel það ekki sambærilegt við það að ég valdi öðrum kostnaði, að vegna þess að viðkomandi myndi koma mér til hjálpar ef ég lenti í vanda þá hafi hann einhvern rétt á að stýra því hvað ég geri. Ég tel vera mun á því annars vegar að valda kostnaði og hinu að fara sér að voða þannig að annar gæti mögulega komið manni til hjálpar.

Hv. þingmaður spurði hvort ætti að leyfa sölu lyfja. Ég myndi vilja víkka þær heimildir, já, en ég vil benda líka á að sala lyfja er nú þegar frjáls að tilskildum ákveðnum leyfum eins og lagt er til að gildi um áfengi í þessu frumvarpi. Það er kannski ágætissamanburður.

Að lokum varðandi lítratalið sem kom fram í upphafi þá er það rétt að fjöldi lítra af alkóhóli jókst eftir að bjórinn var leyfður á Íslandi, en á sama tíma dróst saman neysla á sterku áfengi, unglingadrykkja dróst verulega saman og skaði af völdum drykkju dróst saman. Ég vil benda líka á að í Mið- og Suður-Evrópu er lítratalið í neyslu áfengis mun hærra á sama tíma og skaðsemi vegna hennar er allt önnur. (Forseti hringir.) Ég vil því í þessu samhengi spyrja hvort það sé endilega samhengi á milli lítratals og skaða (Forseti hringir.) og einnig hvort hv. þingmaður sé að segja að hann myndi styðja það að afnema lögleiðingu, þ.e. koma aftur á bjórbanninu.