146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:05]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég átti svolítið bágt með að skilja þetta með einstaklingsfrelsið og lýðheilsuna. Ég sé ekki þennan mun eða við erum þá bara ósammála um þennan aðskilnað. Fyrir mér er þetta bílbeltamál ágætisdæmi um að einstaklingsfrelsi er skert í þágu lýðheilsunnar og um það snerist mitt mál. Við skulum bara vera ósammála. Ég skil ekki nákvæmlega þessa röksemdafærslu.

Um lyfin er það að segja að þau eru í apótekum, en það gætu komið fram hugmyndir um að vera með lyfsölu í, við skulum segja Hagkaup eða slíkum búðum. Myndum við þá styðja það? Nei, ég myndi ekki gera það. Ég notaði sérstaklega þetta dæmi til þess að útskýra það að við höfum ákveðinn fyrirvara á sölu lyfja, hvort sem það eru verkjalyf eða einhver önnur, við viljum ekki hafa þá sölu í smásöluverslunum, a.m.k. ekki ég. Það skerðir þá persónufrelsi jafnvel minni hluta landsmanna sem myndi vilja það.

Varðandi bjórinn. Nei, nei, ég hef ekki nokkurn áhuga á því að skerða bjórsölu veitingahúsa eða ÁTVR. Aðalmálið er að það eru örugglega ekki neysluvenjur sem stýra því hvaða neikvæðu áhrif finnast í samfélaginu af neyslu áfengis. Það er vissulega lítratal hreins vínanda sem gerir það. Ég held að ég megi fullyrða það og ég get borið saman einhver lönd til að styðja mál mitt, sem ég ekki geri því að ég hef svo sem ekki nægar upplýsingar um það haldbærar, en ég held að það hafi alveg örugglega með vínandamagnið að gera en ekki hvort menn drekki bjór, rauðvín eða brennivín.