146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Það er mikið að maður kemst að. Ég er þingmaður í flokki sem leggur áherslu á frjálslyndi og í flokki sem leggur áherslu á almannahagsmuni umfram sérhagsmuni. Kannski eru það þessar tvær áherslur frekar en aðrar lykiláherslur Viðreisnar sem gera að verkum að ég get einfaldlega ekki greint á milli hvort fleiri hafa gagnrýnt mig eða þakkað fyrir afstöðu mína í þessu máli, áfengismálinu, afstöðu sem ég gaf upp aðspurð hér í ræðustól fyrir u.þ.b. þremur vikum. Þar viðurkenndi ég að í mér toguðust mjög sterkt á tvö sjónarmið í þessu máli. Mig langar til að árétta þau hér.

Mér finnst að ríkið eigi ekki að standa í smásölurekstri og ég er almennt þeirrar skoðunar að fólk eigi sjálft að fá að bera ábyrgð á ákvörðunum sínum og gerðum. En eins og ég hef sagt áður, þegar kemur að þessu tiltekna máli, þá eru önnur mjög sterk samfélagsleg sjónarmið sem koma inn í myndina hjá mér, og það eru heilbrigðisáhrifin.

Þingmenn hafa hér eins og svo oft áður skipst á skoðunum um þetta mál þvert á pólitískar línur. Það gerir í mínum huga lítið annað en að staðfesta að þetta mál er flókið. Það er ekki að ástæðulausu að frumvarp í þessa átt kemur upp ár eftir ár. Það er einfaldlega fólk, alls konar fólk, sem kallar eftir breytingum í þessu máli. Það eru raunverulega færri flokkar hér en fleiri sem eru algjörlega einhuga um þetta mál.

Ég segi að ég telji að ríkið eigi ekki að standa í smásölurekstri. Mér finnst ekki að opinber starfsmaður sé betur til þess fallinn að afgreiða áfengi en starfsmaður í einkaverslun. Ég tel ekki að ríkið verði að reka sérstakar vínverslanir frekar en einkaaðilar. Ég tel ekki hættu á því að einkaaðilar, sem leyft verður að selja áfengi í smásölu, svindli á settum takmörkunum, það mætti jafnvel færa rök fyrir því að þeir hefðu ríkari ástæður til að gæta sín sérstaklega. Sú ástæða væri þá missir leyfisins og það er þá vopn, ef svo má kalla, sem hægt er að beita á einkaaðilann en varla þann opinbera.

Að þessu sögðu hugnast mér ekki að vín sé selt eins og hver önnur matvara í verslunum. Vín er einfaldlega ekki eins og hver önnur matvara og um það vitna fjölmargar rannsóknir. Ég veit að menn greinir á um hversu bókstaflega ber að taka slíkar niðurstöður. Það hefur m.a. komið hátt og skýrt fram hér í ræðustól undanfarið. Það er líka staðreynd að menn vísa í mismunandi rannsóknir. Menn vísa í mismunandi rannsóknaraðferðir, mismunandi þýði, mismunandi menningu o.s.frv.

Ég ætla hins vegar að láta lýðheilsusjónarmiðin njóta vafans þegar ég skoða þetta mál. Að hluta til er það pragmatísk nálgun hjá mér. Við stöndum frammi fyrir fyrirsjáanlegum kostnaðarauka í heilbrigðiskerfinu, það er vitað mál. Þar kemur margt til, þar á meðal hækkandi lífaldur þjóðarinnar. Það kemur einfaldlega til að við gerum auknar kröfur um heilsu fram á efri ár sem er frábært, sérstaklega ef við getum staðið undir öllum þessum kröfum. Við stöndum frammi fyrir því að auknar tækninýjungar, sem í fjölmörgum tilfellum bæta heilsu, kosta líka. Sá kostnaður, skammtímakostnaður alla vega, lendir á heilbrigðiskerfinu þótt ávinningurinn sé vissulega til staðar, kemur bara fram annars staðar.

Þessu til viðbótar er það líka staðreynd að einn helsti kostnaðaraukinn felst í sívaxandi þunga svokallaðra lífsstílstengdra sjúkdóma. Ég tel að besta leiðin til að koma böndum yfir þann kostnaðarauka sem er í kortunum sé að hemja þessa aukningu í lífsstílstengdum sjúkdómum. Það eru rök sem ég legg til grundvallar minnar afstöðu. Mér finnst áhættan einfaldlega of mikil í ljósi ávinnings.

Sú leið sem kynnt er í því frumvarpi sem hér er til umræðu felur að mínu mati í sér ansi stór skref í þessu viðkvæma máli. Ég myndi vilja leggja til að við áframhaldandi vinnu frumvarpsins verði reynt að ná eins konar samstöðu, samstöðu sem gæti falið í sér að afnema einkaleyfi ríkisins á sölu áfengis, líkt og hv. þm. Pawel Bartoszek opnaði á hér í ræðustól fyrr í dag og leyfisveitingar til einkaaðila yrðu þá mjög ströngum takmörkunum og eftirliti háðar.

Niðurstaða mín hér er sú að frumvarpið í núverandi mynd fær ekki atkvæði mitt. Að því sögðu er ég til í að skoða mögulega breytingar sem kunna að vera gerðar á því í meðferð þingsins. Ég mun taka endanlega ákvörðun þegar niðurstöður þeirrar vinnu liggja fyrir.