146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir ræðuna og kannski fyrst og fremst fyrir að vera svolítið lausnamiðuð. Ég er ein af þeim þingmönnum sem hefur ekki gert upp hug sinn varðandi þetta frumvarp. Ég verð að viðurkenna að ég er ný á þingi, eins og hv. þingmaður. Hér hafa átt sér stað umræður í nokkra klukkutíma, kannski farið að telja í tug. Mér finnst þessar ræður ekki hafa hjálpað mér neitt einstaklega mikið við að gera upp afstöðu mína en ég tek undir með hv. þingmanni að mér finnst ástæða til að gefa einkaleyfið frjálst. Ég get ekki séð að ríkið sé endilega ábyrgari aðili til að annast sölu á áfengi en einkaaðilar. Það eru nefnd lyf, sprengiefni, skotvopn og annað þess háttar í greinargerðinni.

Mig langar að heyra örlítið betur frá þingmanninum hver afstaða hennar er til tóbakssölu. Nú er tóbak selt í sérverslunum og í matvöruverslunum. Maður má velta fyrir sér hvort það ætti að breyta eitthvað frekar sölunni á því, hvort þetta séu kannski sambærilegar vörur sem hér um ræðir, áfengi og tóbak, enda hefur það hingað til heyrt undir ÁTVR. Það væri gaman að heyra frá hv. þingmanni hvort hún hafi lagst yfir það hvort ástæða sé til að jafnvel herða löggjöf í kringum það og hvernig það fyrirkomulag yrði.