146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:31]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst mikilvægt, eins og hv. þingmanni, að við tölum okkur niður á lausnir. Það er talað hér um djúpstæðan ágreining og við heyrum það úti í samfélaginu að fjölmiðlar og almenningur hefur mikinn áhuga á þessu frumvarpi en eins og hefur komið fram er þetta ekki í fyrsta skipti sem þetta frumvarp er lagt fram og umræðan hefur oft verið mikil. En ég vil trúa því að vel sé hægt að ná nokkuð breiðri samstöðu á þingi um breytingar á því fyrirkomulagi sem við búum við í dag. Ég velti því hreinlega fyrir mér ef áfengi væri ný vara sem væri að koma á markað og við værum á þeirri skoðun að hún væri lögleg hvort það fyrirkomulag sem við búum við í dag væri það fyrirkomulag sem við myndum velja eða eitthvert annað.

Þess vegna langar mig að taka undir með hv. þingmanni. Ég held að mikilvægt sé að þetta mál komist til nefndar sem fyrst, að nefndin leggist yfir þær umsagnir sem um málið kunna að koma og sjái hvort ekki sé hægt að finna flöt á því að ná samstöðu á þingi um breytingu á því fyrirkomulagi sem er í dag, því að þótt ég heyri fólk hafa mismunandi skoðanir á því er ég ekki endilega svo sannfærð um að þetta sé alveg besta fyrirkomulagið sem við höfum núna.