146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:33]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki bein spurning í tali hv. þingmanns en ég ætla engu að síður að árétta, af því að við erum svolítið að tala í sömu áttina, við þá sem hafa áhyggjur af því að með þessari breytingu, með leyfi forseta, yrði fjandinn laus að hægt er að setja alla varnagla þótt um sé að ræða einkaaðila. Ég veit ekki betur, og þá verður einhver að leiðrétta mig sem betur þekkir til, en að ákvarðanir um hvar ÁTVR opnar verslanir í dag séu teknar inni á skrifstofu forstjóra. Ég veit ekki hver ræður för þar. Er ekki betra að hafa þetta opið og gegnsætt og að það séu reglugerðir, takmarkanir, sveitarfélögin? Ég ímynda mér að í meðförum nefndar, ef af verður, verði sérstaða landsbyggðarinnar skoðuð. Komið hefur fram í máli fjölmargra að aðferð sem hentar vel í þéttbýlinu hentar ekki í dreifbýlinu, sem er svo sem gömul saga og á við um flestallt. En engu að síður held ég að við gætum alla vega náð gagnlegri umræðu ef við færum í þann farveg og vonandi lausn sem gæti komið í veg fyrir að þetta mál dúkkaði upp fljótlega aftur og að fleiri aðilar yrðu ánægðir með niðurstöðuna.