146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum verslun með áfengi og tóbak enn eina ferðina og er sannast sagna full ástæða til að fara yfir þá umræðu sem hefur átt sér stað. Mig langar til að byrja á að fjalla lítillega um tilefni þessa frumvarps.

Nú hefur verið látið að því liggja í þessari umræðu að staðan sé nánast sú að við komum hér að auðu borði, þ.e. komum að þeirri stöðu að hér sé í raun og veru engin löggjöf. Skemmst er að minnast orða hv. þm. Pawels Bartoszeks sem talaði um að við værum að stíga skref þegar við tækjum ákvörðun um að núverandi fyrirkomulag yrði áfram við lýði. Mér finnst mikilvægt að við höldum því til haga að við þurfum alltaf þegar við komum fram með frumvarp eða ræðum þau í þingsal að spyrja hvaða vandamál það er sem við þurfum að leysa með nýrri löggjöf. Af hverju þetta mál? Hvað er það sem er að? Hverju þarf að breyta? Og þá er það viðfangsefni okkar að reyna að vega og meta rök með og á móti og spyrja okkur hver þörf samfélagsins í heild sé fyrir þá meintu réttarbót eða breytingu sem boðuð er.

Nú hefur það verið svo að þeir sem hafa fyrst og fremst talað fyrir málinu hafa jafnvel snúið umræðunni frekar á þann veg að sönnunarbyrðin sé hjá þeim sem eru á móti málinu. Ég vil leyfa mér að andmæla því. Sönnunarbyrðin er hjá þeim sem koma fram með málið. Þeir þurfa að sýna fram á að hér sé eitthvert það ástand sem þarf að breyta og hægt sé að rökstyðja að sú breyting sé til bóta fyrir samfélagið í heild.

Nú hef ég hlustað vel eftir umræðunni hjá þeim sem styðja málið og niðurstaða mín er sú að afstaða þeirra sé ekki að jafnaði studd faglegum rökum. Hún er fyrst og fremst studd pólitískum rökum, studd rökum sem lúta að gildum, eins og hefur verið rætt, lúta að skilningi á því hvernig samfélagið eigi að vera samsett, óháð þeim umsögnum sem koma fram frá sérfræðingum og stofnunum í samfélaginu. Það er ekkert að því. En um leið þarf líka að þola þá rökræðu sem af því leiðir. Þeir sem styðja þetta mál hafa kosið að líta á lýðheilsurökin og þessi heilsufarslegu rök sem ekki nægilega mikils virði, þau vegi ekki nægilega þungt til þess að vega upp þau sjónarmið sem lúta að gildum og hugmyndafræði flutningsmannanna sem oftar en ekki í orði snýst um hugtök og notkun, þá fyrst og fremst á hugtakinu frelsi og frelsi einstaklingsins.

Hér hafa átt sér stað ágætisskoðanaskipti um nákvæmlega þau mál, þ.e. það frelsi sem annars vegar lýtur að frelsi einstaklinganna og hins vegar frelsi þeirra sem fara með verslun í landinu, frelsi til að versla með eða selja vöru. En ég get ekki látið hjá líða að vitna til umræðu sem átti sér stað síðast þegar þessi mál bar á góma, í október 2015. Þá vék þáverandi hv. þm. Róbert Marshall að því að þetta mál snerist fyrst og fremst um að draga úr veseni fyrir þá sem vilja kaupa sér áfengi. Það er ekki verið að auka frelsi einstaklingsins í þeim skilningi að þetta snúist um að geta keypt sér áfengi eða ekki, heldur miklu frekar að einstaklingurinn þurfi að taka færri skref. Þetta frumvarp sé lagt fram til að draga úr snúningum, stytta verslunarferðina fyrir helgar, draga úr vandræðum. Nú veit ég að hv. flutningsmenn hafa líka viljað víkja að prinsippum sem lúta að því hverjir eigi að sjá um hvað í samfélaginu, hvað það sé sem ríkið eigi að sjá um o.s.frv. en ég vil leyfa mér að snúa þeim rökum til baka og segja að hér sé um að ræða óvenjulega vöru sem fari vel á að sé undir handarjaðri almannavaldsins, einmitt vegna þess hversu óvenjuleg hún er, og að sönnunarbyrðin sé þeirra sem halda hinu gagnstæða fram.

Hér var aðeins talað um stöðu og örlög þeirra sem þjást af alkóhólisma og einnig um stöðu og þjáningar þeirra sem eru í fjölskyldum með þeim sem þjást af alkóhólisma. Mig langar að nefna og halda því til haga fyrir okkur öll að mér er það til efs að nokkur alþingismaður sé í þeirri stöðu að þekkja ekki persónulega til alkóhólisma, í eigin fjölskyldu. Án þess að það eigi að vera leiðarstef í þessari umræðu eða hún að snúast um hvort fólk hafi stöðu eða rétt til að tjá sig um þetta tiltekna mál er það svo, því miður, að alkóhólismi er sjúkdómur sem gegnsýrir samfélagið. Þess vegna eigum við líka að taka tillit til þess. Þess vegna er sú breyta líka partur af umræðunni þó að sá þáttur umræðunnar kunni að verða mjög tilfinningahlaðinn.

Eigum við aðeins að staldra við frelsi þeirra sem hafa kosið að velja sér líf án vímuefna? Frelsi þeirra sem hafa kosið sér að vera edrú? Mig langar að spyrja: Er það ekki ákveðin frelsisskerðing eða ágeng hegðun samfélagsins gagnvart þeim sem kjósa að lifa edrú með öllum þeim verkefnum sem það felur í sér, mæta á fundi, taka hina daglegu glímu, að þurfa að þola það í samfélaginu að almannarýmið sé í raun og veru tekið undir það að ota að viðkomandi og minna hann á vöruna sem glíman snýst um á hverjum degi? Eigum við að hlusta á slíkar raddir? Eigum við jafnvel að nefna tillitssemi sem einhverja hugmynd sem við gætum tekið með inn í umræðuna? Ef Alþingi myndi velja að draga úr veseni fyrir einhvern hóp — og ég ætla ekki einu sinni að fara út í það að drifkraftur þessa frumvarps kunni fyrst og fremst að vera sérhagsmunir stórverslunarinnar, því að það hefur ekki verið meðal þeirra raka sem hv. þingmenn hafa beitt í málinu — sem vonandi á ekki í vandræðum með neyslu á þessari vöru, gæti maður þá látið vega þar á móti tillitssemi við þá sem standa í daglegri glímu? Það eru þúsundir Íslendinga sem standa í daglegri glímu. Getum við talað um samfélag þar sem við tökum tillit til þess að fólk sé á mismunandi stað í lífinu og þeir sem vilja nota áfengi ættu jafnvel að vera tilbúnir að leggja lykkju á leið sína til þess að kaupa áfengi, en gera ekki kröfu um að geta gripið það alltaf með sér þegar þeim hentar? Er þetta einhver hugsun sem er þess virði að fara út í? Ég spyr.

Mér fannst mjög áhugavert að sjá umsögn við málið á fyrri stigum frá Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd sem kom fram við þinglega meðferð málsins þá, eða raunar þar áður. Þessi háskólastofnun er staðsett á lóð Háskóla Íslands í félagsráðgjafardeildinni. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Fulltrúar fjármagns og gróðasjónarmiða hafa haft slík áhrif í samfélagi okkar undanfarið að þjóðarógn hefur stafað af — og gerir enn. Rökstuðningur fyrir þessu frumvarpi speglar verðmætamat og hagsmunaáherslur sem einkenna þessi sömu markaðsöfl. Hér má heyra sjónarmið talsmanna óheftrar frjálshyggju og skeytingarleysis um gildi mannauðs og barnaverndar.“

Virðulegur forseti. Gildi barnaverndar. Hér er tekið mjög djúpt í árinni. Þetta er gríðarlega pólitísk umsögn, vegna þess að þetta mál er mjög pólitískt. Og hér sér þessi stofnun, sem hefur það hlutverk, þá stöðu að benda okkur á Alþingi á að okkur beri að hlusta eftir sjónarmiðum, jafnvel þeirra sem ekki hafa sterka rödd, eins og t.d. barna. Við eigum að gera það. Við eigum ekki að þykjast geta verið í sporum allra en við eigum að hlusta eftir því þegar þeir aðilar sem eru í því hlutverki benda okkur á. Við eigum að gera það.

Ef við horfum bara á málið út frá þessu sjónarhorni erum við í raun og veru að segja að viðfangsefni eins og barnavernd sé lítils virði í umræðunni. Barnaverndarmál snúast nefnilega um það að samfélagið og stofnanir þess, þ.e. við öll, hafi sammælst um að börn eigi rétt á ríkari vernd en þeirri sem fjölskyldan getur veitt þeim. Börn eiga rétt á vernd umfram þá vernd sem fjölskyldan getur veitt þeim, sérstaklega þegar illa gengur. Þau eiga rétt á ríkari varðstöðu um hagsmuni sína og lífsgæði en fjölskyldur sem eiga í vanda geta veitt þeim. Þetta er mjög mikilvæg hugsun, ekki síst í svona máli. Þetta er hugsunin um að börn eigi rétt á samfélagi og að samfélagið beri allt ábyrgð á öllum börnum og velferð þeirra. Þetta er að finna í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er ekki bull. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna snýst um það að okkur ber sem kjörnum fulltrúum alls samfélagsins að taka mið af þessum sjónarmiðum. Þá hugsun er að finna í öllum mögulegum alþjóðlegum sáttmálum sem við erum aðilar að, en þá hugsun er ekki að finna í þessu frumvarpi. Þessi hugsun, um börn og barnavernd, er fjarverandi í málinu.

Menn segja þá kannski: En það er ekki það sem við erum að ræða hérna, við viljum bara ræða um sálfræðiþjónustu undir öðrum málum, þetta er annað mál. En bíðum nú aðeins við. Hér erum við með umboðsmann barna, Læknafélag Íslands, embætti landlæknis, og allir þessir aðilar nefna hagsmuni barna sérstaklega og að þeir hagsmunir séu í hættu ef þetta frumvarp verður samþykkt. Af hverju eru hagsmunir barna í hættu? Vegna þess að börn eru viðkvæmur hópur. Þau eru það af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að þau hafa ekki völd og í öðru lagi vegna þess að þau hafa ekki rödd. Þess vegna ber okkur sem höfum trúnaðartraust almennings að hlusta sérstaklega eftir þeim aðilum sem eru til þess bærir að reyna að leiða þessa rödd fram. Þetta eru þeir aðilar. Það eru ekki Samtök verslunar og þjónustu, ekki Samtök atvinnulífsins, ekki þeir sem vilja flytja inn eða selja áfengi í matvörubúðum. En þessir aðilar segja þetta. Mér finnst engin leið önnur en að hlusta eftir þeim sjónarmiðum, virðulegi forseti. Það að hunsa leiðsögn þessara aðila gengur ekki að mínu mati öðruvísi en að vera með afar sterk rök sem halda beinlínis hinu gagnstæða fram.