146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[19:51]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir hennar ræðu. Ég vil einnig þakka henni fyrir að lýsa skoðunum mínum á þessu máli og minni hugmyndafræði að stærstum hluta á sanngjarnan og heiðarlegan hátt. Í einu tilliti þótti mér þó halla þar á. Það var þegar hún notaði orðið vesen hvað eftir annað og lýsti því þannig að við værum með þessu frumvarpi að reyna að lágmarka það vesen sem fólk þyrfti að standa í við að útvega sér áfengi.

Ef ég hefði það að fyrsta markmiði að lágmarka það vesen sem fólk þarf að standa í til að útvega sér áfengi væri það miklu einfaldari leið að fjölga þeim útsölustöðum ÁTVR sem til eru því að ekki þyrfti að breyta neinum lögum til þess. Við gætum jafnvel haft það fyrirkomulag sem þekkist víða í Bandaríkjunum, og þekkist á Íslandi utan höfuðborgarsvæðisins, að vínið er einfaldlega í hillum venjulegra verslana en er þó selt undir merkjum ÁTVR eða viðkomandi einkasölu ríkisins hverju sinni. Það væri líklega pólitískt séð talsvert auðveldari lausn og tillaga en að leggja hitt fram.

Það sem vakir fyrir okkur er ekki einungis — ekki einu sinni í aðalatriðum — að minnka vesen heldur gefa fólki, bæði þeim sem selja og þeim sem kaupa, meira val um það hjá hverjum það verslar þessa tilteknu vöru.