146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[20:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að biðja hv. þingmann að leggja mér ekki orð í munn. Það er mjög mikilvægt að við gerum það ekki hér. Ég sagði ekki að það væri aukaatriði að ræða aðgengi barna alkóhólista að sálfræðiþjónustu. Það sagði ég ekki. Ég sagði að það væri ekki hluti af þeirri umræðu sem hér væri undir í þessu tiltekna þingmáli. Þingmálið fjallar ekki um sálfræðiþjónustu fyrir börn alkóhólista. Það gerir það ekki.

Ég fagna því ef hv. þingmaður hyggst leggja fram slíkt þingmál. Ég mun styðja það ef það kemur fram. Mér finnst afar mikilvægt að hv. þingmaður gæti mjög vel að því hvernig hún nálgast umræðuna, að vera ekki að ætla fólki ákveðna afstöðu í málum og jafnvel að ganga svo langt að kalla hana bull, þá umræðu sem hér hefur átt sér stað, undir þeim formerkjum að hún sé í þeirri stöðu frekar en einhverjir aðrir hér að tala af þekkingu um málið. Ég frábið mér það.

Ég vil segja að umræðan hefur verið afar góð. Það er þannig með þessa umræðu, bæði í dag og fyrir helgi og raunar áður þegar málið hefur verið á dagskrá, að umræðan hefur verið góð og að megninu til verið til gagns. Ég vil ekki taka undir að þetta hafi verið hefðbundin skylmingaumræða í gömlum stíl. Mér finnst fólk að jafnaði hafa lagt fram rök og reynt að hlusta eftir gagnstæðum rökum og taka þátt í samtali sem er ætlað til þess að dýpka málið. Það er raunar þannig í þessu máli að það eru óvenjulega margir sem hafa gefið það upp, rétt eins og hv. þingmaður, og sagst ekki hafa tekið endanlega afstöðu til málsins, þó svo að hún í andsvari taki sér greinilega stöðu með flutningsmönnum málsins. Í andsvari við mig virðist hún ekki vera mjög opin fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef hér talað fyrir. En það er samt sem áður þannig að umræðan er greinilega til þess fallin að fólk geti mótað sér afstöðu og gert það þá væntanlega með það að markmiði að gera öllu samfélaginu til góða.