146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[20:21]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni áðan að vafasamar samlíkingar hefðu verið látnar fljúga í ræðustól fyrr í dag. Þegar ég hlusta á þingmanninn gera mikið úr því hvernig tilgáta verði að kenningu og síðan að lögmáli og að hugmyndir sérfræðinga um lýðheilsumál og áfengisneyslu standist engan veginn þær kröfur að verða að einhvers konar lögmáli sé ég að það var kannski ekki rétt að líkja hv. þingmanni við þá aðila, sérstaklega vestan hafs, sem afneita vísindarökum þegar kemur að loftslagsbreytingum af mannavöldum. Það hefði kannski frekar átt að nefna þá sem afneita þróunarkenningunni, sem eins og flestar vísindakenningar stenst ekki þá grandskoðun sem þarf til að verða að fullgildu lögmáli en er bara skrambi góð og hefur haldið ágætlega í nokkuð mörg ár.

En nóg um það karp. Ég kvaddi mér aðallega hljóðs til að ræða við þingmanninn um þinglega meðferð þessa máls, sem mér finnst skipta máli. Mér finnst skipta máli að við vöndum til verka. Í ljósi þess að þingmaðurinn telur annað af tveimur aðalatriðunum í umræðunni vera hvernig málið snerti við lýðheilsusjónarmiðum spyr ég hvort þingmaðurinn sé mér ekki sammála í því, að því gefnu að málið gangi til allsherjar- og menntamálanefndar, að kallað verði eftir umsögn og einhverri umræðu innan velferðarnefndar sömuleiðis þar sem málið snertir stóra málaflokka sem þar heyra undir.