146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

kjararáð.

189. mál
[20:47]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þingmanni verður tíðrætt um brostnar forsendur. Ég velti því fyrir mér með hliðsjón af nýjustu fréttum hvort það séu ekki brostnar forsendur fyrir þessu frumvarpi.

Aðilar vinnumarkaðarins koma saman og segja: Það eru brostnar forsendur fyrir úrskurði kjararáðs með hliðsjón af samningum okkar 2013. Þessir sömu aðilar vinnumarkaðarins vissu árið 2013 að kjararáð úrskurðar um laun ákveðinna hópa. Þeir geta ekki bundið kjararáð með einhverjum samningum sín á milli og sagt: Brostnar forsendur. Kjararáð úrskurðar eftir lögum sem um það gilda. Aðilar vinnumarkaðarins vissu líka, hv. þingmaður, að lækkunin sem varð 2009, um 10–15%, átti að vera tímabundin. Aðilar vinnumarkaðarins vissu líka að frysting eftir það í langan tíma, bara frysting, á meðan aðrir hópar fengu launahækkun. Jú, það voru engar launahækkanir á þessum árum. Þá vissu menn það alveg að það yrði risastór hækkun þegar kjararáð úrskurðaði eftir lögum sem um það gilda.

Menn verða líka að muna að kjararáð úrskurðar ekki bara eftir almennri þróun, það eru fleiri atriði sem hafa áhrif á úrskurð kjararáðs. Þannig eru lögin. Það er mikilvægt að farið sé eftir lögunum. Hægt er að breyta þeim, en maður breytir ekki svona, af því að menn voru að tala mikið um að ekki væri hægt að breyta afturvirkt. Maður breytir engu svona. Það eru vond vinnubrögð og þau verða ekkert betri þótt vitnað sé í Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Bara alls ekki. Þetta eru vinnubrögð sem eru algerlega fráleit í raun og veru.

En mest er ég þó hissa á aðilum vinnumarkaðarins (Forseti hringir.) að ætla að setja hér allt í uppnám og skaða umbjóðendur sína mest með því að ætla að rifta samningum út af þessu.