146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

kjararáð.

189. mál
[20:49]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Aðilar vinnumarkaðarins ætla ekki, eins og ég nefndi í ræðu minni ef hv. þingmaður var að hlusta, að rifta samningum vegna þess að kjarasamningsforsendurnar eru brostnar. Þeir ætla að fresta viðbrögðum við því.

Varðandi lögin. Hv. þingmaður hefur lesið lögin. Í lögunum er alveg skýrt að taka á ákvörðun á þremur forsendum. Launaþróunarforsendan, að laun ráðamanna fari ekki umfram launaþróun almennings, rammar inn hinar tvær ákvarðanirnar. Það er alveg skýrt í lögunum. Það er það sem sett var inn á sínum tíma og passað var upp á það. Hitt er, sem er bara skynsamlegt, að það eigi að vera almennt samræmi og samræmi við þá hópa sem undir kjararáð heyra, að þeir séu í samræmi við aðra sambærilega aðila. Ókei? Það er ein forsenda. Og enn önnur er að ákvarðanir um þessa aðila, þetta innra samræmi, séu í samræmi við aðra hópa sem kjararáð tekur ákvarðanir um. Innra og ytra samræmi. Það er rammað inn. Þetta veit þingmaðurinn, geri ég ráð fyrir. (BN: Þetta er vond lögskýring.) Rammað inn. Hv. þingmaður segir að þetta sé vond lögskýring. Ég hef þetta nú bara frá aðilum vinnumarkaðarins og öðrum aðilum sem hafa kynnt sér málið. Ef hv. þingmaður telur sig vita betur má ræða það og við getum rætt það í nefndinni. En þetta er sú lögskýring sem ég hef fengið frá öllum öðrum aðilum.

Hv. þingmaður segir að það sé slæm ákvörðun og að ekki sé hægt að samþykkja þetta og segir að það sé slæmt að taka ákvarðanir afturvirkt. Ég er sammála því. Það er slæmt að taka ákvarðanir afturvirkt. Enda fjallar þetta frumvarp ekki um að taka ákvarðanir afturvirkt, eins og frumvarpið sem hv. þingmaður samþykkti í gær gerir. Það er með afturvirkar ákvarðanir varðandi réttindi ellilífeyrisþega. En ókei. Þetta frumvarp gerir það ekki. Það er ekki með afturvirk ákvæði. Þetta frumvarp segir það sama og frumvarp Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, og frumvarp Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi forsætisráðherra, að kjararáð skuli taka aftur ákvörðun og að sú ákvörðun skuli (Forseti hringir.) styðjast við almenna launaþróun.