146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

kjararáð.

189. mál
[20:52]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Efni andsvarsins fólst eiginlega í því hvernig hægt væri að meta þetta miðað við forsendur frá 2013 þegar vitað var að launalækkunin ætti að ganga til baka. Hún var bara tímabundin. Hvernig dettur mönnum í hug að miða við árið 2013 og segja svo: Menn fara hér langt umfram launaþróun? Ef við förum aftur til 2006 getum við sagt að hækkunin sé örlítið hærri. Kannski 5–10% hærri. (JÞÓ: 13?) Nei. (Gripið fram í.) Já, ókei, það skiptir ekki máli. En bara það atriði að menn hafi verið lækkaðir í launum í langan tíma, það launatap — sú ákvörðun er ekki afturvirk hjá kjararáði. Nei, hún er nefnilega ekki afturvirk. Ef hv. þingmaður horfir með sanngjörnum hætti á þróunina sér hann að þessir hópar hafa ekki fylgt henni, lengi vel gerðu þeir það ekki. Nú átti að leiðrétta, eins og alltaf stóð til, þ.e. að leiðrétta þessa stöðu þegar staðan í samfélaginu yrði betri.

Eftir hrunið var verið að hugsa um þá lægst launuðu. Aðrir urðu að þola lækkun. Að aðilum vinnumarkaðarins detti í hug að segja að forsendur samninga séu brostnar vegna þess að það var gert sem átti alltaf að gera og var samkvæmt lögunum — ég held að það sé vond niðurstaða að taka slíkar leikreglur úr gildi og breyta þeim núna og segja: Þá gerum við þetta upp á nýtt og miðum við 2013, sem þýðir auðvitað að taka eigi af þeim launahækkunina. Það eru vond vinnubrögð, jafnvel þótt ég sé mikill aðdáandi Davíðs Oddssonar var þetta alveg hræðileg ákvörðun og framkvæmd á þeim tíma.