146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

kjararáð.

189. mál
[20:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni. Þessi einkunnarorð úr grunnstefnu Pírata eru meðal ástæðnanna fyrir því að ég er á þingi í dag, en þau eru líka ein af ástæðunum fyrir því að ég fór að beita mér í kjararáðsmálinu allt frá upphafi þingsetu minnar hér. Launaákvörðun kjararáðs á kjördag kom mér og öðrum Pírötum í opna skjöldu. Okkur var brugðið, enda töldum við öll að sú ákvörðun væri á skjön við lög um kjararáð þar sem hækkunin sem um ræðir var langt umfram almenna þróun kjara á vinnumarkaði, eins og lög um kjararáð segja fyrir um.

Hv. þm. Jón Þór Ólafsson hefur farið ágætlega yfir aðkomu sína að málinu og vildi ég aðeins reifa hvernig það hefur horft við mér og hver ástæðan er fyrir því að ég stend fyrir frumvarpi Pírata þetta ágæta kvöld og ræði það. Frá því að úrskurður kjararáðs var látinn falla á kjördag höfum við Píratar, þá sérstaklega við hv. þm. Jón Þór Ólafsson, beitt okkur í því máli með margvíslegum hætti. Hv. þm. Jón Þór Ólafsson fór strax að tala fyrir því að starfsstjórnin ætti að grípa inn í og beina því til kjararáðs að endurskoða ákvörðun sína. Sú sem hér stendur ritaði fyrirspurn til kjararáðs fyrir hönd Pírata á grundvelli stjórnsýslulaga, sem ég taldi mér alla vega trú um að myndu gilda um ákvörðun kjararáðs, og sendi það af stað þann 21. nóvember 2016, í fyrra, þar sem við í þingflokki Pírata óskuðum eftir ítarlegum upplýsingum um þau gögn og þær ástæður sem lægju að baki ákvörðun kjararáðs. Í fyrsta lagi töldum við okkur aðila máls samkvæmt stjórnsýslulögum þar sem ákvörðun kjararáðs tók til launa okkar hér á þingi. Í öðru lagi töldum við ýmislegt vanta upp á í rökstuðningi kjararáðs í úrskurði þess svo við gætum tekið upplýsta afstöðu til þess hvort kjararáð hefði raunverulega skoðað alla þætti málsins sem máli skipta þegar kjararáð mat hvort tekið hefði verið tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði, eins og segir í lögum um kjararáð.

Frú forseti. Fyrirspurn þingflokks Pírata var ekki stór í sniðum en innihélt þó nokkrar spurningar sem ég ætla að leyfa mér að lesa úr hér, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Pírata óskar eftir því að fá eftirfarandi skjöl og gögn frá kjararáði:

Fundargerð kjararáðs, dagskrá, fundargögn og fundarboð funda kjararáðs, dagsett 29. október 2016, sbr. 10. gr. starfsreglna kjararáðs, sem og öll sambærileg gögn er varða sama málefni, bréf þau og önnur gögn sem kjararáði hafa borist vegna athugunar ráðsins á kjörum þingmanna, ráðherra og forseta Íslands.“

Við óskuðum sérstaklega eftir afriti af bréfi sem kjararáði barst frá forsætisráðherra, fyrir hönd ráðherra í ríkisstjórn Íslands, bréfi frá forseta Alþingis og bréfi frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Eins óskuðum við eftir gögnum þeim og rökum sem notast var við til þess að meta hvort ákvæði um samráð við aðila máls væru uppfyllt, sbr. 2. og 3. mgr. 7. gr. starfsreglna kjararáðs, 2. mgr. 6. gr. laga um kjararáð, ásamt 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga, en nýjum þingmönnum, þar með talið ráðherrum, var ekki gert kunnugt um fyrirhugaða ákvörðun kjararáðs.

Loks óskuðum við eftir gögnum þeim sem kjararáð byggði á til þess að uppfylla 3. mgr. 8. gr. laga um kjararáð, þess efnis að kjararáð skyldi ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði. Tíminn leið og ekkert bólaði á svari frá kjararáði, þó að það hafi nú loks borist og mun ég koma aðeins inn á það í lok tölu minnar.

Sú sem hér stendur sendi fyrirspurn til kjararáðs og þingið brást við með því að efnahags- og viðskiptanefnd tók fyrir heildarendurskoðun á lögum um kjararáð, að frumkvæði þáverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktssonar. Ég taldi sjálfri mér trú um að leiða ætti í lög það sem margir þingmenn höfðu sagt að væri mál málanna, að ekki bæri að endurskoða ákvörðun kjararáðs þar sem það væri óeðlilegt inngrip, við gætum allt eins sleppt því að vera með kjararáð ef við ætluðum að grípa beint inn í ákvarðanir þess. Ég verð að segja ég tók undir með hv. þingmönnum sem þannig töluðu þar sem þeir töluðu fyrir auknu gagnsæi í störfum kjararáðs. Þeir töluðu fyrir því að bæta lög kjararáðs á þann hátt að meiri sátt myndi ríkja um ákvarðanir þess framvegis og að gagnsæi yrði stóraukið í ákvörðunum þess eftirleiðis.

Þannig töluðu margir þingmenn. Ég er þar engin undantekning, enda beitti ég mér í hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir ýmsum breytingartillögum á meirihlutaáliti nefndarinnar í lögum um kjararáð sem allar viku að auknu gagnsæi í störfum kjararáðs. Átti ég mér því nokkuð bjartar vonir um að við myndum alla vega laga þetta til þess að ríkt gæti meiri sátt um úrskurði ráðsins framvegis.

Það fór ekki betur en svo að langflestar breytingartillögur mínar um aukið gagnsæi í kjararáði voru kolfelldar á þingi, þar á meðal krafa um að kjararáð birti fundargerðir sínar opinberlega, krafa um að kjararáð birti hagsmunaskráningu sína opinberlega og krafa um að einhvers konar hæfnisskilyrði myndu liggja fyrir því að fólk yrði skipað í kjararáð, þ.e. að það hefði einhvers konar menntun eða reynslu sem myndi nýtast því í starfi sem meðlimir kjararáðs. Það var allt saman fellt af Alþingi.

Sömuleiðis var breytingartillaga þess efnis að kjararáð skyldi aldrei fara umfram almenna þróun kjara á vinnumarkaði einnig felld af þingmönnum þessa þings.

Á sama tíma, frú forseti, undirritaði ég bréf fyrir hönd Pírata ásamt formönnum allra flokka á þingi til forseta Alþingis þar sem því var beint til forseta Alþingis að endurskoða þær reglur sem giltu um svokallaðan starfskostnað þingmanna sem eru að langmestu leyti skattfrjálsar greiðslur sem þingmenn fá og þurfa í raun ekki að gera nein skil á til þess að standa undir ákveðnum starfskostnaði. Átti það að stemma stigu við hinni miklu launahækkun þingmanna, koma til móts við það uppþot sem varð í þjóðfélaginu vegna þeirrar miklu hækkunar. Okkur var sagt að það væri góð leið til þess að bregðast við þeim úrskurði.

Ég verð að segja að ég trúði því að fulltrúar allra flokka hefðu raunverulegan áhuga á því að auka gagnsæi varðandi kjararáð og laga þau lög sem gilda um það, og vildu taka þetta mál föstum tökum og af einhverri alvöru. Þess í stað voru allar breytingartillögur Pírata hvað varðar gagnsæiskröfur felldar hér á þingi nema ein. Og 100.000 kr. hækkun á skattfrjálsum tekjum sem heita á starfskostnaður, var göldruð upp í 150.000 kr. hækkun af því að hinum ímyndaða skatti sem þingmenn þurfa ekki að greiða af þeim kostnaði var bætt ofan á í einhverjum villiljósareiknikúnstum sem á nú að telja almenningi trú um að fyrirfinnist í raunveruleika sem ég bý alla vega ekki í, frú forseti. Manni fallast hendur.

Loks barst okkur svar frá kjararáði þann 31. janúar. Þá kom í ljós að kjararáð virðist ekki álíta sig þurfa að fara að stjórnsýslulögum við ákvarðanir sínar eins og við á þingi, en það voru einu breytingartillögur mínar sem samþykktar voru á þingi sem komust inn í meirihlutaálit efnahags- og viðskiptanefndar í meðförum nefndarinnar um kjararáð, þ.e. að kjararáð skyldi fylgja stjórnsýslulögum og upplýsingalögum. Okkur barst sem sagt svar frá kjararáði þann 31. janúar 2017 þar sem fram kom að kjararáð teldi sér ekki skylt að upplýsa þingflokk Pírata um nokkurn skapaðan hlut af því sem við höfum óskað eftir, þar á meðal um fundargerðir kjararáðs, dagskrá, fundargögn, fundarboð eða bréf eða önnur gögn frá forsætisráðherra eða ráðherrum ríkisstjórnar Íslands eða forseta Alþingis, né heldur hvaða gögn kjararáð notaðist við til að ákveða hvort ákvörðun þess stæðist raunverulega þróun kjara á almennum vinnumarkaði. Rökin voru eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Launaákvörðun kjararáðs á launum þingmanna er ákvörðun um starfið sjálft og byggist á ytri hlutlægum þáttum samanber lög um kjararáð.“

Þessir hlutlægu þættir eru þó ekki hlutlægari en svo að við óskuðum nánari skýringa á því hvernig kjararáð hefði komist að þeirri niðurstöðu að þau uppfylltu skilyrði laga um kjararáð. Við í þingflokki Pírata munum að sjálfsögðu fara lengra með þetta mál og ekki gefast upp fyrr en við fáum upplýsingar frá kjararáði, hvort sem það verður við meðferð þessa máls í nefnd eða í gegnum aðrar stjórnsýsluleiðir, af því að gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni. Þetta mál hefur frá upphafi til enda verið vegferð hinna valdameiri, að koma í veg fyrir að hinir valdaminni, þ.e. almenningur, gagnvart þingmönnum, gagnvart ráðherrum, gagnvart valdstjórninni, fái eitthvað að vita um hvernig kjararáð vinnur vinnu sína. Almenningur fær ekkert að vita um þau gögn sem kjararáð notast við. Þrátt fyrir upplýsingalög í landinu, þrátt fyrir stjórnsýslulög í landinu og þrátt fyrir fögur fyrirheit og mikinn fagurgala og óskir um aukið gagnsæi í störfum kjararáðs hefur ekkert af því gengið eftir.

Ég álít að það frumvarp sem hér liggur fyrir sé lokatilraun til þess að opna hina valdameiri fyrir eftirliti hinna valdaminni. Það er kominn tími til, frú forseti.