146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

kjararáð.

189. mál
[21:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það má vissulega skoða aðkomu þessa frumvarps að launakjörum dómara. Það mun vissulega koma að því að skoða það alveg sérstaklega í meðförum nefndarinnar á málinu hvort viðeigandi sé að svo verði eða ekki.

Hins vegar langar mig að ræða rétt aðeins um annað sem hv. þingmaður lét falla í andsvari sínu þess efnis hvað varðaði starfskjör eða starfskostnað þingmanna, að ég alla vega sjálf áttaði mig ekki á því en sé það náttúrlega frekar vel núna að starfskostnaður er ekki laun. Samt hefur verið komið fram með þennan starfskostnað sem laun. Það í sjálfu sér, þegar maður hugsar um það, er náttúrlega bara hneykslanlegt. Að við álítum sem svo að ef við lækkum starfskostnað sem við getum notað hér á þingi, að það jafngildi launalækkun er algjör firring. Það sem starfskostnaður allra vinnandi manna fer í, það er starfskostnaður, þ.e. við ættum að leggja inn nótur fyrir því og við borgum ekki skatt af því, það eru ekki launagreiðslur. Þannig að það eitt og sér er ekki nóg af því að þetta var launaákvörðun sem kjararáð tók.

Ég hélt að með því að bæta lög um kjararáð gætum við alla vega komist skrefinu lengra í að gera þetta eitthvað sanngjarnara og væri ekki jafn blaut tuska í andlitið á almenningi í landinu sem fær kannski nokkurra prósenta hækkanir á meðan við upplifum margra tuga prósenta hækkanir. En lækkun starfskostnaðar um 100.000 kr., tæpar eða rúmar, sem við bullum svo um að séu 150.000 kr. í einhverjum veruleika, það var ekki nóg.