146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[21:46]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er mjög heppilegt að við þurfum ekki að afgreiða málið í kvöld. Þá umræðu sem hv. þingmaður vísar til getum við að sjálfsögðu átt á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar.

Það er auðvitað svo að það hefur verið mikil tregða við þessa hugmyndafræði innan Evrópusambandsins. Hv. þingmaður er sérstakur aðdáandi þess. Í staðinn hefur verið ráðist í þetta umfangsmikla regluverk sem ég vísaði til áðan, sem hefur sætt mikilli gagnrýni. Það hefur verið ráðist í mjög umfangsmikið regluverk án þess að skoða aðskilnaðinn út í hörgul, af því að það hefur verið gríðarleg andspyrna við það frá hagsmunaaðilum.

Hv. þingmaður nefnir Icesave og áhættuna af því. Ég held að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir hana með annars konar regluverki um viðskiptabankahlutann og ekkert sérstaklega flóknu, svo ég nefni það. Ég held að ef við skoðum þá umræðu sem hefur verið í gangi horfi mjög margir sérfræðingar til þess að fjárfestingarbankastarfsemin skapi óþarfa áhættu. Það eru einhverjir á öðru máli, eins og hv. þingmaður segir. Mér finnst eðlilegt og sjálfsagt, til þess erum við hér á þingi, að við köfum ofan í það.

Ástæða þess að ég ræddi áðan um þingmannamál sem sjaldan komast til meðferðar er að þau gera það sjaldnast. Það er ítrekað búið að segja í þinginu að nú eigi að kafa ofan í þetta og skipa starfshópa og hvað veit ég. Ég spyr hv. þingmann sem er svo heppinn að sitja með mér í hv. efnahags- og viðskiptanefnd ásamt fleira góðu fólki: Er hann þá ekki til í að við gerum það á vettvangi nefndarinnar og tökum þessa umræðu? Tökum þetta mál þrátt fyrir að það sé þingmannamál og megi helst ekki fjalla um það sem slíkt? Að við tökum þessa umræðu, því að þetta erum við margoft búin að segja? Eins og ég vitnaði til áðan: Sex af sjö formönnum flokka eða talsmönnum héldu þessu a.m.k. fram fyrir kosningar, (Forseti hringir.) að ástæða sé til að skoða þetta. Eigum við ekki að hlusta á það?