146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[21:50]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég leyfi mér samt að hafa skoðun á því að við ræðum mjög oft mál í myrkri sem ættu betur heima í dagsljósi, þó að það sé tiltölulega skammt. Hv. þingmaður er greinilega maður myrkursins, en það er ég ekki. Ég hef oft talið að gæði umræðna dvíni talsvert eftir því sem þingfundur dregst á langinn. Kannski er hv. þingmaður ósammála. (BN: Algerlega ósammála.) Hann tekur fundarstjórn um það á eftir.

Hv. þingmaður spyr hér: Af hverju leggur þú þetta fram í þingsályktunartillögu? Af hverju leggur þú þetta ekki fram einhvern veginn öðruvísi? Þetta er ágætisleið til að leggja þetta mál fram og til að ræða það. Ég hef margítrekað spurst fyrir um þetta í fyrirspurnum og fengið þau svör að málið sé í skoðun. Nú vil ég að Alþingi taki þetta mál sjálft upp og skoði það. Það gerum við best með einhverri svona tillögu. Ég get ekkert gert það með neinum öðrum formlegum hætti. Hún hefði vafalaust mátt vera orðuð öðruvísi og ég er mjög opin fyrir samningum við hv. þingmann um að við getum breytt tillögunni í meðförum nefndar, ef það er niðurstaðan af því sem kemur út úr rannsóknarstarfi nefndarinnar. En þetta hefur verið í skoðun alllengi einhvers staðar annars staðar í stjórnkerfinu. Þetta hefur ekki verið í skoðun á Alþingi. Ég fæ ekki betur séð en að það sé mikill pólitískur vilji til að skoða það. Ég hef sannfæringu fyrir því að þetta geti verið rétt leið, einhver leið sem miðar að slíkum aðskilnaði. Ég er ekkert algerlega sannfærð um að sú leið sem þarna er lögð mest áhersla á, þ.e. að aðskilja í viðskiptabanka og fjárfestingarbanka, sé eina rétta leiðin. Það getum við rætt og reifað. En mér finnst ekki ganga að þetta sé alltaf skilið eftir sem eitthvað í skoðun. Það finnst mér ekki ganga, sérstaklega þegar við erum að ganga í gegnum þessar miklu breytingar á umgjörð fjármálakerfisins sem hv. þingmenn, margir hverjir, hafa rætt sem ógagnsæjar og sem skila ekki endilega markmiði sínu.