146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[22:08]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skildi ekki margt í þessari ræðu [Hlátur í þingsal.] en ég skildi þó að ríkið ætti helst að eiga bankana, a.m.k. enn um sinn, og í staðinn fyrir að selja og greiða niður skuldir ættum við að einbeita okkur að því að lækka vexti. Þá vil ég spyrja hv. þingmann um nokkuð sem frumvarpið sjálft snýr ekki að: Myndi þingmaðurinn ekki ætla að það að selja hlut í bönkum og greiða niður skuldir gæti haft áhrif á vaxtastigið í landinu, til lækkunar, sem kannski öllum finnst augljóst? Eða hvernig ætlar hv. þingmaður að lækka vaxtastigið í landinu? Hvaða aðgerðir er hann að hugsa um í því?