146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[22:15]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara í hagfræðiskýringar og ætla að standa við það, jafnvel þótt svo kunni að fara að einhver reyni að brydda upp á slíkri umræðu í andsvörum.

Í öðrum kafla fyrsta bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 segir m.a., með leyfi forseta:

„Athuganir rannsóknarnefndarinnar á starfsemi íslensku bankanna benda til þess að rýmkaðar starfsheimildir fjármálastofnana á síðustu árum hafi orðið til að auka verulega áhættu í rekstri þeirra. Sérstaka athygli vekur að frelsi lánastofnana til að stunda áhættusamari fjárfestingar var aukið umtalsvert á þessu tímabili. Meðal annars var heimilað að stunda fjárfestingarbankastarfsemi samhliða hefðbundinni starfsemi viðskiptabanka án þess að svigrúmi til aukinnar áhættutöku hafi um leið fylgt fullnægjandi aðhald og kröfur um aukið eigið fé.“

Svo mörg voru þau orð. Þetta er m.a. ástæða þess að ég legg nafn mitt við þessa þingsályktunartillögu og kýs að lengja ekki mál mitt frekar en segi einfaldlega: Við skulum ekki brenna okkur tvisvar á sama soðinu.