146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

dagskrá morgundagsins.

[22:39]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þm. Smára McCarthy. Það er með ólíkindum að dagskrá morgundagsins liggi ekki fyrir. Þetta er Alþingi Íslendinga. Við viljum öll mæta vel undirbúin til leiks. Hvernig eigum við að gera það þegar við vitum ekki hver dagskráin er? Flest okkar verða í nefndarstarfi klukkan níu. Ég veit ekki hvar við eigum að vera að undirbúa okkur, hvernig við eigum að gera það. Á flestum stöðum liggur alltaf fyrir sirka hvernig vikan er og hvað fólk er að fara að gera, en ekki hér. Ég tek undir með hv. þingmanni, mér finnst þetta með ólíkindum. Það er líka með ólíkindum hvernig forgangsröðun þingsins er er varðar málefnið sem við erum að ræða, áfengisfrumvarpið er rætt fyrri hluta dags og við eyðum mörgum klukkutímum, en svo ég ítreki það enn og aftur: Þegar við erum að ræða um aðskilnað viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi gerum við það hér og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er ekki í salnum.