146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[22:40]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli. Að henni stendur allur þingflokkur Framsóknarflokksins. Auk mín sem hér stend eru það hv. þingmenn Elsa Lára Arnardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Alfreðsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Willum Þór Þórsson.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi feli samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að beita sér fyrir því að norðaustur/suðvestur-flugbrautin á Reykjavíkurflugvelli, oft kölluð braut 06/24, sem í daglegu tali er kölluð neyðarbrautin, verði opnuð á ný eins fljótt og mögulegt er. Lagt er til að ráðherra beiti sér í málinu með sérstakri lagasetningu um Reykjavíkurflugvöll eða á annan hátt og greini Alþingi frá aðgerðaáætlun um opnun hennar í síðasta lagi í maí 2017. Umrædd flugbraut liggur frá norðaustri til suðvesturs og hefur verið notuð þegar vindar hamla lendingu á öðrum brautum.

Virðulegi forseti. Ekki hefur verið lögð fram tillaga í þinginu í þessa veru en á 145. þingi lagði hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson fram frumvarp um Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni, mál nr. 898, en tilgangur þess var að festa Reykjavíkurflugvöll í sessi í því horfi sem hann hefur verið til fjölda ára í Vatnsmýrinni í Reykjavík, þar til Alþingi ákveði annað. Málið komst ekki á dagskrá þingsins.

Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugs á Íslandi og gegnir lykilhlutverki fyrir samgönguöryggi landsmanna. Eina hátæknisjúkrahús landsins er í Reykjavík og því er mikilvægt að leið sjúklinga af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar sé ávallt greið. Reykjavíkurflugvöllur og nálægð hans við Landspítalann er mjög mikilvæg fyrir sjúkra- og neyðarflutninga, hver mínúta getur skipt sköpum þegar flytja þarf sjúklinga í lífshættu með sjúkraflugi og koma þeim með skjótum hætti í réttar hendur.

Það hefur sýnt sig að reglulega kemur upp sú staða að veðurskilyrði og færð á flugbrautum Reykjavíkurflugvallar er þannig að einungis er hægt að lenda á neyðarbraut vallarins í hvassri suðvestanátt og er 06/24-brautin t.d. eina flugbrautin á suðvesturhorni landsins sem sjúkraflugvélar geta lent á.

Mér fannst nóg að nefna tilvik sem átti sér stað síðla árs 2016 þegar sjúkraflugvél með sjúkling frá Höfn í Hornafirði gat ekki lent á Reykjavíkurflugvelli vegna þess að hvöss suðvestanátt var ríkjandi og þess vegna þurfti að fljúga með sjúklinginn til Akureyrar. Útkallið var í fyrsta forgangi þar sem gerð er krafa um tafarlaus viðbrögð. Í þessu tilviki hefði hæglega verið hægt að lenda á neyðarbrautinni.

Hæstv. forseti. Mig langar til að gera stuttlega grein fyrir aðdragandanum að gerð þessa máls. 9. júní 2016 var 06/24-brautinni lokað þegar dómur Hæstaréttar féll í máli íslenska ríkisins gegn Reykjavíkurborg. Með lokun brautarinnar fór nýtingarhlutfall flugvallarins niður fyrir 95% og uppfyllir flugvöllurinn því ekki lengur lágmarksskilyrði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Margir hafa gagnrýnt þessa ákvörðun og telja hana ógn við samgönguöryggi landsmanna. Stjórn Flugmálafélags Íslands, sérfræðingar í flugmálum og sveitarfélög eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt ákvörðunina og hvatt stjórnvöld til að finna skjóta lausn á þessu mikilvæga máli þar til fundin hefur verið framtíðarlausn fyrir innanlandsflugið á Íslandi.

Máli mínu til stuðnings langar mig að benda á gögn úr skýrslu stýrihóps um flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu frá júní 2015. Þar kemur fram að ferðatími með sjúkrabíl frá flugvelli að Landspítalanum mun aukast um 7,5–11,5 mínútur frá því sem nú er ef flugvöllur yrði byggður í Hvassahrauni í stað Vatnsmýrar. Tími sjúkraflutninga með sjúkraflugi mun lengjast um 8,5–12,5 mínútur vegna aukins flug- og aksturstíma. Niðurstaða áhættumatshóps, sem birtist fyrri hluta árs 2014, var einróma sú að lokun flugbrautar 06/24 hefði óásættanlegar afleiðingar á flugöryggi. Í áhættumatshópnum sátu m.a. aðilar frá Flugfélagi Íslands, Flugfélaginu Erni, Mýflugi, Geirfugli, Fluggörðum, Landhelgisgæslunni og Isavia. Ekki hefur verið hægt að sýna fram á með afgerandi hætti að lokun brautarinnar komi ekki niður á flugöryggi.

Í niðurstöðu Samgöngustofu frá því sumarið 2015, um áhættumat, kemur fram að áhættumat Isavia nái hvorki til áhrifa á flugvallakerfi landsins í heild sinni, neyðarskipulags Almannavarna, sjúkraflutninga né fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur.

Virðulegi forseti. Ég vona að mál þetta fái skjóta afgreiðslu í þinginu. Að umræðu lokinni óska ég eftir að málinu verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar.