146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[22:54]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir andsvarið. Þetta mál er mjög aðkallandi. Menn sem sinna sjúkraflutningum hér á landi telja þetta galið. Þetta er eina flugbrautin sem liggur með þessa stefnu sem nú er. Menn fara ekki af stað í ótryggu veðri nema þeir viti að einhver braut sé fær. Sú er raunin að menn hafa farið af stað í flug vitandi það að einungis þessi braut er fær. Svo hafa veðurskilyrði breyst á leiðinni og menn hafa getað lent á annarri braut en þeir hefðu ekki farið af stað nema þessi vissa hefði verið til staðar.

Varðandi það hvort þetta sé leið til sátta þá held ég að þetta sé leið til að bjarga því sem bjargað verður núna ef önnur leið er ekki fær í málinu. Svo virðist vera nú um stundir. Ég ítreka það að ef við náum því hratt og örugglega fram, með samtali og sátt, að þessi braut verði opnuð og flugöryggi með sjúklinga verði tryggt og bætt til muna þá er ég alveg tilbúin til þess. En ég held að þetta séu aðgerðir sem við getum þurft að grípa til.