146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[23:05]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þm. Pawel Bartoszek rugla saman hlutum með Rögnunefndina og síðan aftur samkomulagi Jóns Gnarrs og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á sínum tíma. Það samkomulag, um norðaustur/suðvestur-brautina, var undirritað 21. október 2013. Síðan kemur hluti af þessu samkomulagi með Rögnunefndinni. Niðurstaða Rögnunefndarinnar á sínum tíma var að besti þróunarkosturinn væri Hvassahraun. Það hefur verið gríðarlegur misskilningur töluvert lengi varðandi það og m.a. hafa þeir sem hafa setið í Rögnunefndinni ekki náð að koma því almennilega frá sér hvað þeir voru að tala um miðað við hvernig það dæmi var svo túlkað út á við. Það voru aðrir kostir, betri kostir, en með Hvassahrauninu voru menn hins vegar að hugsa um að þar kæmi að lokum sambærilegur flugvöllur og er í Keflavík. Það væri hægt að flytja flugið þangað. Það var það sem þetta gekk út á. Bessastaðanes kom t.d. ekki til greina vegna þess að ekki var talið að hægt væri að fara út í jafn langar brautir og annað með svipuðum hætti og brautirnar í Keflavík eru.

Mér fannst vera svolítið stutt á milli þessara tveggja þátta í ræðunni.

Varðandi samkomulagið milli þáverandi borgarstjóra og þáverandi innanríkisráðherra var það samkomulag milli þeirra tveggja. Það er mjög sérstakt að lesa það samkomulag sem þú ert með í höndum. Þetta er ákveðið svona „blackmail“, á vondri íslensku, t.d. hvað (Forseti hringir.) kemur fyrir í samkomulaginu. En ég vil bara benda þér á að kynna þér þetta og rugla þessu tvennu ekki saman.