146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[23:12]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Það hlýtur að vera keppikefli stjórnvalda í siðuðum heimi að búa þannig um hnútana að almenningur hafi besta mögulega aðgengi að bráðaþjónustu heilbrigðiskerfis. Nú er komin upp sú staða að tækifærum til að lenda sjúkraflugvélum á Reykjavíkurflugvelli í nálægð við best búna sjúkrahús landsins hefur fækkað til muna eftir að norðaustur/suðvestur-braut vallarins var lokað.

Þessi braut sem flugáhugafólk kallar 06/24 hefur oftast verið kölluð neyðarbraut, enda hefur hún nær eingöngu verið notuð þegar ekki hefur verið hægt að lenda á hinum tveimur brautum vallarins vegna óhagstæðra veðurskilyrða. Á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því að brautinni var lokað hafa sjúkraflugvélar Mýflugs þurft frá að hverfa a.m.k. þrisvar sinnum, þ.e. hafa ekki getað lent á vellinum. Í öll skiptin fór þó betur en á horfðist þar sem Sjúkrahús Akureyrar gat veitt viðkomandi sjúklingum nauðsynlega þjónustu.

Sjúkrahús Akureyrar hefur, þótt það sé best búna sjúkrahús landsins utan Landspítalans, ekki á að skipa sérfræðingum á öllum sviðum læknisfræðinnar. Það er svo sannarlega ekki búið sambærilegum tækjum og Landspítalinn. Það getur þar af leiðandi ekki sinnt öllum bráðatilvikum sem upp koma, hvorki alvarlegustu slysaáverkum né alvarlegustu veikindum.

Þessi tillaga til þingsályktunar er ekki dæmi um útrétta sáttarhönd í þessari deilu sem gengur í endurnýjun lífdaga enn og aftur á þingi hér í kvöld. Við erum minnt á að þetta hlýtur að þurfa að skoðast í stærra samhengi og er sorglegt að það skuli ekki hafa verið skoðað í stærra samhengi miklu fyrr. Þá á ég við sjúkraflug í heild sinni. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í ágúst 2013 um sjúkraflug á Íslandi er fjallað um mögulega aðkomu Landhelgisgæslunnar að sjúkraflutningum. Ég ætla að leyfa mér að lesa örlítið brot úr þeirri skýrslu, með leyfi forseta:

„Helstu rök fyrir því að Landhelgisgæslan annist allt almennt sjúkraflug eru betri nýting á mannskap, tækjum og aðstöðu hennar og jafnframt aukið öryggi landsmanna. Bráðaþjónusta með flugi yrði heildstæðari en nú er þar sem beiðnir um sjúkraflug og björgun færu um einn og sama farveg, þ.e. stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Þá styrkti þetta fjárhagslegan grundvöll Landhelgisgæslunnar en hún hefur undanfarin ár fjármagnað starfsemi sína að hluta með leigu skipa og flugvéla til útlanda. Loks hefur verið bent á að öryggi íbúa, ferðalanga og sjófarenda á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi ykist til muna ef Landhelgisgæslan hefði aðstöðu á Norðurlandi. Þyrla Landhelgisgæslunnar þjónar þessum landshlutum ekki nema að takmörkuðu leyti, m.a. vegna fjarlægðar frá Reykjavík.

Þyrlusveit varnarliðsins aðstoðaði Landhelgisgæsluna meðan hún var hér á landi (til 1. október 2006). Eftir það varð að endurmeta stöðu þyrlubjörgunarþjónustu á landinu. Í skýrslu um þjónustuna sem dóms- og kirkjumálaráðherra lét vinna á árinu 2006 kom fram að hagkvæmni og öryggi í rekstri krefðist þess að þyrlubjörgunarsveitin hefði bækistöð á einum stað og í tengslum við höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar. Var Reykjavík talin henta vel þar sem þyrlurnar flyttu einna helst sjúka og slasaða á sjúkrahús í Reykjavík. Fagfólk í sjúkraflutningum taldi samt að tryggja mætti öryggi í rekstri þótt ein eða fleiri af þyrlum Landhelgisgæslunnar yrði höfð annars staðar en í Reykjavík. Jafnframt benti það á að stytta mætti flugtíma með því að staðsetja þyrlur utan höfuðborgarsvæðisins, t.d. á Norðausturlandi. Þannig yrði styttra að sækja sjúka og slasaða af landsbyggðinni og til sjós. Helstu rök sem nefnd hafa verið gegn því að staðsetja þyrlur utan Reykjavíkur eru að því fylgi aukinn kostnaður, t.d. vegna greiðslu dagpeninga til áhafna þyrlnanna.

Að margra mati er enn þörf fyrir þyrlur utan höfuðborgarsvæðisins og hefur t.d. verið litið til þess þegar aðkoma Landhelgisgæslunnar að sjúkraflugi hefur verið skoðuð. Í júlí 2012 lýsti forstjóri Landhelgisgæslunnar áhuga á að hún tæki að sér allt sjúkraflug og sagði m.a. í útvarpsviðtali að best væri að sameina allt sjúkraflug á landinu. Slökkviliðsstjórinn á Akureyri tók undir þetta í fjölmiðlum og nefndi að Akureyri hentaði vel fyrir bæði þyrlu og sjúkraflug. Benti hann m.a. á að öryggi landsmanna væri betur tryggt með því að staðsetja þyrlur utan höfuðborgarsvæðisins vegna hættu á náttúruhamförum sem gætu hamlað flugi á þar.“

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að mikið vatn á eftir að renna til sjávar áður en endanleg lausn fæst í þessu stóra vandamáli. Við verðum hins vegar að reyna að búa svo um hnútana að allur almenningur á Íslandi hafi aðgang að hátæknisjúkrahúsi landsins, því eina sem við eigum, hér í Reykjavík.