146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[23:34]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég reikna með að hv. þm. Logi Einarsson sé að vitna í skýrslu, sem gefin var út í kringum 1990, sem mig minnir að Álfheiður Ingadóttir hafi verið í forsvari fyrir. Skýrslan hefur í sjálfu sér ekki neitt vægi í íslenskri stjórnsýslu. Ég skal útskýra það. Strax á bls. 2 segir:

„Nefndarmenn komust að þeirri niðurstöðu að gerð áhættumats vegna Reykjavíkurflugvallar krefðist yfirgripsmeiri og sérhæfðari rannsókna en væru á færi nefndarinnar auk þess sem ekki liggur fyrir ákvörðun stjórnvalda um það hvað teljist ásættanleg áhætta af rekstri flugvallar í Vatnsmýri.“

Það þýddi að skýrslan kom aldrei inn á borð þáverandi flugráðs eða neins staðar í stjórnsýslunni þannig að hún hefur í sjálfu sér ekkert vægi, enda sögðu nefndarmennirnir bara: Við höfum ekki þekkingu til að sinna málinu.

Varðandi það sem þingmaðurinn kemur inn á — Samfylkingarfólk hefur haft töluverðan áhuga á að vísa í landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins frá 2013 — ég reyndi reyndar að fá aðra bókun samþykkta á þeim landsfundi sem varðaði allar þrjár brautirnar. Það var ákveðin andstaða gagnvart því hjá ákveðnum öflum í Reykjavík. Eins og hv. þm. Logi Már Einarsson veit mætavel frá fyrri samskiptum okkar þá hafði ég ekki hugmynd um þetta 2013. Það er bara komin miklu meiri þekking í þessu máli undanfarin ár og menn hafa kynnt sér málin miklu betur en gert var áður fyrr. Það er raunverulega niðurstaðan í því.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig eigum við þá að leysa málið? Hv. þingmaður vill tala fyrir stefnumótun og eftirliti í pólitíkinni, (Forseti hringir.) en ég er líka fyrir fólkið og öryggishagsmuni þess. Það er það sem málið snýst um núna, um öryggishagsmuni fólks (Forseti hringir.) vítt og breitt um landið. Hvernig eigum að leysa það til skemmri tíma?