146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[23:38]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég endurtek bara það sem ég sagði áðan, að þekkingin sem komin er á málinu núna á síðustu fáum árum er ítarlegri. Það er hægt að halda áfram að rífa eitthvert samkomulag sem er frá því fyrir þann tíma. Ég ætla að benda á annað sem kemur kannski fram í ræðu minni á eftir; áhættumatið sem gert var hérna um árið, athugasemdir Samgöngustofu við áhættumatið og annað og fleiri hluti sem koma núna í ljós frá IKAU. Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna sendi fyrirspurn og nú er komið svar. Svarið er: Áhættumatið var byggt á röngum forsendum. Það er bara málið. Síðan þá hafa verið teknar stjórnvaldsákvarðanir í stjórnsýslunni, eins og hjá Reykjavíkurborg og það er byggt á þessum skýrslum sem hafa raunverulega ekki réttar forsendur á bak við sig. Eigum við ekki líka að skoða það að rétt sé farið með og að menn byggi á réttum upplýsingum?

Varðandi dómana vil ég benda á það að í (Forseti hringir.) héraðsdómi í júní í fyrra kom dómari með forskrift að því hvernig (Forseti hringir.) ríkið gæti brugðist við þessum öryggisþætti málsins. Dómarnir (Forseti hringir.) snerust bara um valdheimildir ráðherra (Forseti hringir.) en aldrei um öryggishagsmuni almennings.