146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Orðræða sem bendir til kynþáttafordóma hefur aukist á Íslandi á undanförnum árum og beinist ekki síst gegn múslimum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu nefndar Evrópuráðsins um Ísland sem m.a. fjallar um kynþáttafordóma og misrétti.

Áréttað er að margt hafi áunnist frá síðustu skýrslu ráðsins frá árinu 2011 en í mörgu þurfum við að gera betur. Hatursorðræða á netinu sé sérstakt áhyggjuefni. Alþingi hefur samþykkt löggjöf gegn hatursorðræðu gagnvart kynhneigð eða kynvitund og ráðið hefur verið í sérstakt stöðugildi hjá lögreglunni sem rannsakar hatursglæpi á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur verið settur upp gagnagrunnur til að fylgjast með hatursorðræðu á netinu. Enn sé þó ekki fyrir hendi heildarlöggjöf sem banni mismunun í hvaða formi sem er og ekki hafi verið komið á fót sérhæfðri stofnun til að takast á við kynþáttafordóma og mismunun.

Í skýrslunni er stefna stjórnvalda frá árinu 2007 um aðlögun innflytjenda líka gagnrýnd. Þar hafi markmið ekki náðst eða tilætlaður árangur. Þá sé engin þjóðmálastefna eða áætlun um aðlögun innflytjenda í gangi hér á landi. Undir þetta er tekið í niðurstöðu skýrslu Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands um flóttamannamál sem birt var á dögunum, þar sem m.a. er lagt til að komið verði á fót hér á landi einni stofnun sem sinni málefnum útlendinga.

Evrópuráðsskýrslan leggur til úrbætur: Að refsiþyngjandi ákvæði verði mögulega tekin upp í hegningarlögum þegar fordómar liggja að baki að broti og jafnframt að stofna ætti miðstöð í Reykjavík í líkingu við hið öfluga Fjölmenningar- og upplýsingasetur á Ísafirði, sem sannað hefur ágæti sitt. Þá ættu yfirvöld að innleiða ítarlega aðlögunaráætlun fyrir innflytjendur hér á landi. Skýrsluhöfundar leggja sem sé til að yfirvöld ljúki við framkvæmdaáætlun um málefni hinsegin fólks, grípi til aðgerða sem miðist við að taka hart á hatursorðræðu og taki einnig á einelti í skólum. Það er mikilvægt að Alþingi haldi vöku sinni í þessu efni, málið snertir okkur öll, þegna í íslensku samfélagi.


Efnisorð er vísa í ræðuna