146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í viðtali við RÚV svaraði forsætisráðherra eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Skýrslan er í raun og veru ekki komin til okkar í endanlegri mynd fyrr en eftir að þing er farið heim.“

Þetta er einföld lygi. Afsökunin við þessu var ónákvæm tímalína. Nú er tímalínan þannig, miðað við upplýsingar sem við höfum fengið eftir á, að haldin var kynning í fjármálaráðuneytinu þann 5. október. Fjármálaráðuneytið sendi ríkisstjórn minnisblað 7. október. Í ræðustól Alþingis sagði ráðherra:

„Ég mun á næstu dögum sömuleiðis skila skýrslu um þau mál sem ég boðaði í vor varðandi umfang þeirra mála.“

Þarna veit ráðherra að skýrslan er tilbúin.

Ráðherra segir einnig í svörum í sérstakri umræðu hér í síðustu viku: „Fjölmiðlum var svarað að skýrslan væri að verða tilbúin.“

Samkvæmt mínum upplýsingum fengu fjölmiðlar einungis að vita að skýrslan væri tilbúin eftir kosningar. Það er þá spurning hvort logið hafi verið að fjölmiðlum fyrir kosningar líka og ef þeim hefur verið svarað að skýrslan væri að verða tilbúin fyrir kosningar þá vissi forsætisráðherra í raun og veru að skýrslan væri tilbúin.

Í sérstökum umræðum í síðustu viku sagði forsætisráðherra:

„Ég hef aldrei í tengslum við þessa skýrslu lagt mat á hvort einhver efnisatriði umfram önnur vörðuðu almannahag.“

Það skiptir gríðarlega miklu máli því að forsætisráðherra hefur frumkvæðisskyldu um birtingu upplýsinga við almenning, ekki við þingið heldur við almenning, um mál sem varða almannahag. Það er skylda hans að ákveða hvort efni sem hann hefur undir höndum varðar almannahag eða ekki. Í þessu tilviki er ráðherra hins vegar tiltölulega vanhæfur vegna tengsla sinna við aflandsfélög, (Forseti hringir.) og allt þetta, öll þessi tímalína og öll þessi ummæli, benda til þess að ráðherra hafi logið að yfirlögðu ráði.


Efnisorð er vísa í ræðuna