146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni í dag skiptingu auðs og gæða hér á landi, öllu heldur misskiptingu auðs og gæða. Tilefnið er svo sem ekki að það hafi komið út ný skýrsla eða neitt heldur einfaldlega að í kjölfarið á því að Kjarninn var tilnefndur til blaðamannaverðlauna fyrir rannsóknarblaðamennsku renndi ég akkúrat í gegnum greinar um þetta og áttaði mig á því að í raun stefnum við áfram á verri veg í þessum efnum. Á síðustu sex árum, samkvæmt Kjarnanum, tvöfaldaðist eigið fé Íslendinga og jókst um 1.384 milljarða en af hreinni eign sem orðið hefur til frá 2010 fengu ríkustu 10% landsmanna fjórar af hverjum tíu krónum. Þetta eru rúmlega 20.000 fjölskyldur sem áttu um 1.888 milljarða í lok árs 2015, 64% af eignum landsmanna.

Skattkerfisbreytingar síðustu ríkisstjórnar hafa aukið á skiptinguna því að þær nýttust aðeins þeim 20% sem best höfðu það. Það er þyngra en tárum taki að núverandi ríkisstjórn skuli ætla að standa fullkominn vörð um þær skattkerfisbreytingar, að það skuli ekki vera snefill af vilja til þess að nýta skattkerfið til tekjujöfnunar.

Þar að auki boðar núverandi ríkisstjórn aukin þjónustugjöld, að það eigi að borga fyrir notkun í staðinn fyrir að taka í gegnum sameiginlega sjóði landsmanna. Ég hef verulegar áhyggjur af því hvert þetta samfélag stefnir, nú á að fara að einkavæða alla bankana, áfram að standa vörð um þá sem best hafa það, (Forseti hringir.) við ætlum að gefa frá okkur ríkiseigur og hleypa einkaaðilum alls staðar að og rukka svo inn. (Forseti hringir.) Heyrir einhver hér samhljóm frá bóluárunum fyrir hrun?


Efnisorð er vísa í ræðuna