146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[15:37]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þetta mál til umræðu. Mig langar að nýta tækifærið til að deila með ykkur stefnu Pírata í heilbrigðismálum. Þar kemur m.a. fram að við eigum öll rétt á fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, að jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé grundvallarmannréttindi sem allir eigi að fá að njóta, að stefnt skuli að því að heilbrigðisþjónusta og nauðsynleg lyfjakaup verði gjaldfrjáls, að aðbúnaður og kjör heilbrigðisstarfsfólks verði bætt verulega og fjársvelti heilbrigðiskerfisins hætt.

Píratar vilja einnig færa sálfræðiþjónustu inn í almannatryggingakerfið, færa þjónustu tannlækna inn í almannatryggingakerfið og viðeigandi heilbrigðisþjónustu fyrir vímuefnanotendur í vanda, í stað refsingar. Jafnframt leggja Píratar áherslu á langtímastefnumótun um forvarnir. Í fyrsta sinn í mannkynssögunni eru fleiri dauðsföll á heimsvísu tengd offitu en undirþyngd — íhugið þessa staðreynd augnablik. Neysluvenjur eru hluti af uppeldi og menntun og í ljósi þess að neyslutengdir sjúkdómar hafa breiðst út, jafnvel meðal yngstu aldurshópa, sem sagt sykursýki og ýmsir fylgikvillar offitu og hreyfingarleysis, virðist augljóst að stórátak í forvörnum og fræðslu um gildi góðs mataræðis og hreyfingar er nauðsynlegt, ekki bara til að bæta lífsgæði og lífslíkur þjóðarinnar og hjálpa fólki til að taka meiri ábyrgð á eigin heilsu, heldur einnig til að minnka álagið á heilbrigðiskerfið.

Þarna er atriði sem ég myndi vilja fara lengra með. Hvernig væri að byrja á forvörnum í skólakerfinu? Um leið og börn hafa þroska til á að kenna heilbrigða lífshætti og forvarnir í skólum. Við þurfum nefnilega að vinna saman til að finna lausnir og horfa heildrænt á kerfin okkar. Það væri gagnlegt að heyra hvort hæstv. heilbrigðisráðherra fyndist ekki ráð að spjalla við hæstv. menntamálaráðherra um það hvort þeir gætu ekki unnið saman að því að auka hlutdeild forvarna í heilbrigðisþjónustu.