146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[15:44]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir þessa sérstöku umræðu hér í dag um framtíðarfyrirkomulag heilbrigðisþjónustu hér á landi. Ég vil taka undir með málshefjanda þegar hún segir að það hafi verið virkilega ánægjulegt að allir flokkar gátu sameinast um það í aðdraganda kosninga að það þyrfti að setja heilbrigðismálin í forgang. Þetta var eitthvað sem við upplifðum öll í þessum „rúndum“ sem við tókum áður en ríkisstjórnin var mynduð, þetta var eitthvað sem við gátum öll verið sammála og sameinast um.

Við erum nefnilega öll sammála um að það er algert grundvallaratriði að allir hafi aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu. Þetta er einmitt forgangsmál hjá ríkisstjórninni eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir kemur réttilega inn á. Ein leið til að standa við þetta tengist einmitt öðru forgangsmáli ríkisstjórnarinnar, að vinna að því að ná fram stöðugleika í efnahags- og peningamálum hér á landi. Eitt meginmarkmið með því, fyrir utan auðvitað að auka lífsgæði okkar allra, allra landsmanna með auknum stöðugleika, er að ná niður vaxtakostnaði. Með því að ná niður vaxtakostnaði höfum við nefnilega úr meiru að spila inn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið, velferðarkerfið almennt, án þess að þurfa að auka skattbyrði á landsmenn. Allir græða. Meiri stöðugleiki þýðir aukin lífsgæði fyrir alla og ríkið hefur úr meiru að spila.