146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[15:46]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu sem sannarlega er tímabær. Vonandi leikum við oft þetta mikilvæga grunnstef í samfélaginu; heilbrigðisþjónustan, velferðarmálin.

Hver er framtíðarsýn okkar í heilbrigðisþjónustu? Er til einhver stefna í heilbrigðismálum? Um það er deilt. Velferðarráðuneytið segir að stefnan sé skýr en lærð skoðun á því stenst því miður ekki. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, doktor í stjórnsýslufræðum, hefur bent á ýmislegan vanda í skipulagi heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Hún segir að því miður séu heilbrigðismálin sjaldnast skoðuð í heild, við séum helst upptekin af því að bregðast við hrópum og köllum, slökkva elda og takast á við það sem hæst ber hverju sinni, jafnvel bregðast við persónulegum uppáhaldsviðhorfum fagfólks. Framtíðarsýn eða mótaðar hugmyndir um hvert skuli halda séu ekki til. Ráðamenn þjóðarinnar hafi á undangengnum árum tileinkað sér í stórum stíl þá trú að húsbygging, bygging spítala, sé stefnumótun í heilbrigðismálum.

Eins er farið með ákvarðanir um skiptingu fjár milli stofnana annars vegar og sérfræðiþjónustunnar utan þeirra hins vegar. Hvers vegna er það ákveðið að ofan hvort aðgerðir og meðferð sjúkdóma fari fram innan eða utan sjúkrahúsa? Hvers vegna fá ekki heilbrigðisstofnanir landsins að stunda þá sérfræðilæknisþjónustu sem þær hafa getu og vilja til og fái að sitja við sama borð og læknastofur sérfræðinga úti í bæ? Fái tækifæri til að horfa til einstaklingsins og þeirrar þjónustu sem hann þarf á að halda? Hvers vegna fá heilbrigðisstofnanir ekki að veita þá þjónustu sem þær telja sér hagkvæmt að framkvæma og fá greitt fyrir það án þess að þurfa að spyrja ráðamenn heilbrigðismála hvort það rúmist í þeirra verkahring?

Svörin við þessum spurningum telur Sigurbjörg að felist í fyrirkomulaginu á fjármögnun þjónustunnar sem heldur heilbrigðisstofnunum landsins í spennitreyju með ómarkvissum og ógagnsæjum hætti. Því þarf að breyta og það er hægt.