146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[15:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þegar rætt er um framtíðarsýn í heilbrigðismálum held ég að segja megi að meðal landsmanna sé sátt og sterk krafa um það í fyrsta lagi að heilbrigðismálin eigi að njóta forgangs í uppbyggingu innviða og bættri þjónustu á komandi árum. Ég held í öðru lagi að líka sé breið sátt um grunnhugmyndafræðina, þ.e. að við rekum opinbert heilbrigðiskerfi, fjármagnað á sameiginlegum grunni með skattfé og að allri gjaldtöku sé stillt mjög í hóf ef hún yfir höfuð fyrirfinnist gagnvart notendum. Í þriðja lagi held ég að sátt sé um innra skipulag heilbrigðisþjónustunnar svo langt sem það nær, þ.e. að heilsugæslan eigi að vera fyrsti viðkomustaður í kerfinu og að hana þurfi að efla sem slíka. Það er líka sátt um þörfina fyrir uppbyggingu á nýjum Landspítala þó að eitthvað hafi verið deilt um staðsetninguna.

Þá má spyrja hver sé vandinn ef við erum sammála um þetta meira og minna, a.m.k. þjóðin og að einhverju leyti gildir það um stjórnmálin. Hver væri vandinn ef t.d. hæstv. heilbrigðisráðherra kæmi í ræðustólinn og segði: Já, ég er sammála þessum grunnstoðum kerfisins á Íslandi, það á byggjast upp og eflast, það á að vera á sameiginlegum grunni, fjármagnað af sameiginlegu aflafé landsmanna í gegnum skattkerfið, gjaldtaka á ekki að viðgangast og heilsugæslan og nýr Landspítali eru þar grunnstoðir?

Vandinn er að ágeng öfl í þessu landi eru alltaf að reyna að troða inn breytingum sem ganga í öfuga átt. Kerfið er orðið miklu blandaðra en það ella þyrfti að vera. Þar liggur vandinn. Og þar þarf hæstv. heilbrigðisráðherra að standast prófið. Það verður að setja því skorður að við veikjum sífellt hið opinbera heilbrigðiskerfi og setjum milljarða á milljarða ofan í viðbót á ári hverju út í einkareksturinn. Það verður að tala mannamál um þetta. Hvers konar heilbrigðiskerfi viljum við á Íslandi? (Forseti hringir.) Viljum við sameiginlegt, opinbert heilbrigðiskerfi að norrænni eða kanadískri fyrirmynd eða viljum við færa okkur í átt til Bandaríkjanna?