146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[15:50]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa góðu og þörfu umræðu. Mig langar að koma með vinkil um framlögin til heilbrigðiskerfisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Mér finnst það áhugaverð umræða, tók þátt í því á þeim tíma og fannst þetta góð hugmynd. Ég er enn á því og mér finnst þetta líka vera partur af þeirri heildarstefnumótun sem er verið að boða. Þetta er einn mælikvarði, en án þess að ákveða fyrir fram að framlögin séu hlutfall af vergri landsframleiðslu finnst mér mikilvægt að skilgreina þjónustuna. Mig langar að taka sem dæmi öldrunarmálin sem mér finnst gríðarlega mikilvæg. Þau verða klárlega vaxandi kostnaður til framtíðar ef við bregðumst ekki við.

Nú er búið að gera mjög góða lýðheilsustefnu á landsvísu sem mér finnst áhugaverð og held að sé mikilvægt innlegg í heildarstefnumótunina. Ég hef mikinn áhuga á að skoða lýðheilsustefnuna sérstaklega og partur af henni er að öll sveitarfélög verða heilsueflandi samfélög. Partur af lýðheilsustefnunni er líka að markvissar forvarnir fari fram á sviði næringar, hreyfingar, geðræktar og slysavarna svo eitthvað sé nefnt. Kannski er ekki hægt að segja að við séum að spara kostnað en þetta er mikilvægt upp á gæði þjónustunnar og við eigum að nýta allar leiðir til að efla samráð og samstarf ríkis og sveitarfélaga til að tryggja fólki góða þjónustu, sérstaklega góða nærþjónustu.