146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[15:53]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er kannski ekkert ýkja langt síðan við áttum í mjög sambærilegum samræðum hér á þinginu. Að sjálfsögðu erum við þingmenn frekar óþreyjufull um að fara að fá skýra sýn í þessum málaflokki, enda er þetta sá málaflokkur sem almenningur lagði hvað mesta áherslu á í aðdraganda kosninga og það hefur verið mjög skýrt þegar rýnt er í skoðanakannanir um hvernig almenningur vill að við þingmenn, þar með taldir ráðherrar, forgangsröðum okkar sameiginlegu fjármunum. Heilbrigðiskerfið er þar langefst á blaði ár eftir ár.

Því langar mig í ljósi þessa að spyrja hæstv. Óttar Proppé, ráðherra heilbrigðismála, hvenær við þingmenn getum átt von á því að fá að sjá þessa heildarsýn. Stendur til að við fáum tækifæri til að koma eitthvað að henni áður en hún er meitluð í stein? Ég geri mér grein fyrir því að það er erfitt að koma með langtímaáætlun í svo stórum málaflokki og hef haft veður af því að hæstv. ráðherra hafi leitað í fortíðina, sem er mjög gott því að mikil vinna hefur átt sér stað í ráðuneytinu og víðar. Er ráðherrann kominn eitthvað á leið? Getur hann komið með skýrslu til okkar um hvaða mál það eru sem brenna á ráðherranum, sem verða rauði þráðurinn í veru hans í embætti heilbrigðisráðherra? Síðan væri mjög gagnlegt að heyra hvernig hæstv. ráðherra hefur tekist til að fá það neglt niður að fá fjármuni í þennan málaflokk í langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar.