146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

framtíðarsýn í heilbrigðismálum.

[16:01]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við Íslendingar höfum náð ágætum árangri á mörgum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Ég nefni meðferð margra bráðasjúkdóma sem þó skilja eftir einstaklinga sem flestir verða aldrei alveg samir eftir. Þess vegna þurfum við að gefa því meiri gaum að viðhalda heilbrigði og fyrirbyggja sjúkdóma, forvarnir. Í Evrópulöndum, nágrannalöndum okkar, fara tæplega 3% útgjalda til heilbrigðismála í forvarnir að jafnaði. Á Íslandi er hlutfallið helmingi lægra, um 1,6% að líkindum. Þarna liggja tækifærin. Íslenska heilbrigðiskerfið telst til svokallaðra félagslegra kerfa með vísan til heilbrigðiskerfa Norðurlandanna en hefur þó færst nokkuð frá sinni kjörmynd með tilfærslu á rekstri og framkvæmd frá hinu opinbera til einkaaðila, í einkaframkvæmd. Þetta hefur gerst með ómarkvissum og ógegnsæjum hætti og stefnulaust. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að endurteknar rannsóknir sýni svo ekki fari á milli mála að almenningur telur að heilbrigðisþjónustan eigi að vera starfrækt af hinu opinbera.

Þetta gerist þrátt fyrir að erlendar rannsóknir gefi til kynna að sjúkrahús, sem dæmi, sem rekin eru af hlutafélögum á hagnaðargrundvelli eru dýrari í rekstri en sjúkrahús sem ekki eru rekin með þeim hætti og veiti síst betri þjónustu.

Heilsugæslan í landinu býr við mikinn brest. Þetta er mikilvægasti hluti heilbrigðisþjónustu landsmanna. Stjórnvöld gera nú tilraunir með nýtt rekstrarform í heilsugæslunni með einkarekstri. Það hlýtur að vera krafa þegnanna að allar heilsugæslustöðvar í landinu fái að sitja við sama borð og við gagnsæi í fjárveitingum. Það á einnig við um hlutverk og þjónustu annarra heilbrigðisstofnana í öllum landsfjórðungum. Stefnumótun og framtíðarsýn skortir.

En spurt er: Verður allur vandi heilbrigðiskerfisins bara leystur með auknum fjárveitingum? Og svarið er að mínu áliti: Nei. Auknir fjármunir munu aðeins hjálpa til við að (Forseti hringir.) fela þann innbyggða skipulagsvanda sem fjármögnun heilbrigðiskerfisins býr því nú og frestar því að á vandanum verði tekið. Vísa ég í því sambandi til niðurstaðna McKinsey-skýrslunnar sem mjög hefur verið vitnað til.