146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

um fundarstjórn.

[16:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í störfum þingsins áðan bar hv. þm. Ásmundur Friðriksson það á mig að ég sakaði forsætisráðherra um að ljúga í ræðustól Alþingis. Ég þarf að leiðrétta þennan misskilning hv. þingmanns. Ég geri ráð fyrir því að fólk segi satt í þessum ræðustól og ef ég teldi forsætisráðherra hafa logið í ræðustól væri ég hér ekki að flytja ræðu undir liðnum um fundarstjórn forseta heldur vantrauststillögu.

Nei, ég segi að forsætisráðherra hafi logið að yfirlögðu ráði í viðtali við RÚV og logið í afsökun sinni þegar að sú lygi var upplýst. Það er engin ónákvæm tímalína. Tímalínan sýndi einmitt hvað ráðherra vissi og að lygin var viljandi. Því kalla ég á forsætisráðherra að svara fyrir þessa lygi í ræðustól Alþingis þar sem fólk á að segja satt. Ráðherra þarf að svara hvort hann hafi brotið siðareglur og hvort efni umræddrar skýrslu varði almannahag. Við þurfum að spyrja okkur hverjar afleiðingarnar af þeirri lygi eiga að vera. Ég býst fastlega við því að hv. þm. Ásmundur Friðriksson leiðrétti þennan misskilning sem hann kvað upp hér áðan um málflutning minn í störfum þingsins.