146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[16:25]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það að á öllum stundum á að vera til umræðu með hvaða hætti skipulagsvaldið er. Ég tel þó að ef hlutast er til um skipulagsvald einstakra sveitarfélaga út af einstökum verkefnum þá geti það komið mjög grimmilega í bakið á öðrum sveitarfélögum seinna. Spurning mín snerist heldur ekkert um það. Ég spurði í ljósi þess hversu aðdragandinn hefur verið langur, í ljósi þess að ríkisstjórnin síðasta og þarsíðasta gerðu ekkert í málinu, í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur margsinnis skrifað undir samkomulag og ekkert aðhafst til þess að stoppa þetta áður en þetta gerðist, hvort hv. þingmaður telji að lagasetning komi til greina og hvort hann telji að það myndi standast stjórnarskrá að ganga gegn hæstaréttardómi þegar málið hefur, eins og ég sagði áðan, átt sér jafnvel 25 ára aðdraganda, a.m.k. 12 ára.